mið 14.sep 2022
Mjög líklegt að Emil semji við Fylki
Fagnað á laugardag
Emil Ásmundsson verður samningslaus eftir tímabilið. Hann er í dag samningsbundinn KR en var lánaður til uppeldisfélagsins Fylkis í júlí. Tími Emils hjá KR hefur mikið einkennst af meiðslum en hann sneri til baka eftir meiðsli í júlí.

Hann hefur komið vel inn í lið Fylkis, hjálpaði liðinu að tryggja sér sæti í Bestu deildinni. Liðið hefur unnið tólf leiki í röð og tryggði sér á laugardag efsta sætið í Lengjudeildinni.

Emil, sem er 27 ára miðjumaður, hefur spilað tíu leiki og skorað fjögur mörk í sumar. Emil sagði við Fótbolta.net eftir leikinn gegn Þrótti Vogum á laugardag að framtíð sín myndi skýrast á næstu dögum.

„Ég held það sé mjög líklegt," sagði Emil aðspurður hvort hann byggist við því að taka slaginn með Fylki.

Telur hann Fylki þurfa að styrkja sig fyrir baráttuna í Bestu?

„Auðvitað er alltaf þörf á einhverri styrkingu en við erum líka bara að reyna að horfa í innviðina hjá okkur. Yngri flokkarnir þeir þurfa að stíga upp, það er búið að einkenna Fylki síðustu ár er að það eru ungir leikmenn að koma upp og fá hlutverk. Við viljum halda áfram að byggja á því, fá einn-tvo upp úr 2. flokknum og gera þá að lykilmönnum í liðinu. Svo er alltaf bónus að fá góða leikmenn sem geta styrkt liðið."