mið 14.sep 2022
Tveimur vikum seinna íhugar Liverpool að rifta við Arthur
Arthur Melo.
Brasilíski miðjumaðurinn Arthur Melo gekk í raðir Liverpool á láni frá Juventus á lokadegi félagaskiptagluggans.

Hann gerði samning út tímabilið við Liverpool sem mun borga stærstan hluta launa hans á leiktíðinni og greiða 4,5 milljónir evra í lánsgjald. Félagið getur svo keypt hann á 37,5 milljónir evra næsta sumar.

Arthur hefur aðeins komið við sögu í einum leik með Liverpool en samkvæmt Tuttomercatoweb á Ítalíu, þá er félagið tilbúið að losa sig við hann strax í janúar.

Menn hjá Liverpool eru ekki heillaðir af Arthur og er Liverpool sagt tilbúið að rifta lánssamningnum í janúar ef möguleiki er á því að fá inn nýjan miðjumann.

Hann er ekki inn í myndinni hjá Juventus og vill ítalska félagið helst ekki fá hann aftur, en það verður áhugavert að sjá hvað gerist.