mið 14.sep 2022
Heimir tekur tvo þjálfara með sér
Heimir Hallgrímsson
Heimir Hallgrímsson verður kynntur sem nýr þjálfari Jamaíka á föstudag en hann mun taka tvo með sér inn í þjálfarateymið. Það er Fréttablaðið sem vekur athygli á þessu en þar er vísað í viðtal við Michael Ricketts, formann fótboltasambands Jamaíka, í Observer.

Á dögunum var greint frá því að Heimir væri í viðræðum erlendis eftir að hafa verið Hermanni Hreiðarssyni til aðstoðar hjá ÍBV í sumar.

Hann var lengi vel orðaður við Val en Hliðarendi er ekki næsti áfangastaður Eyjamannsins.

Heimir mun taka við landsliði Jamaíka og verður kynntur á föstudag en Ricketts staðfesti í samtali við Observer að tveir aðrir þjálfarar koma með Heimi.

„Þjálfarinn tekur markmannsþjálfara og aðstoðarmann. Það er það eina sem hann fór fram á. Hann er búinn að kynna sér fótboltann í Jamaíka og landsliðsmennina og þekkir því vel til þeirra allra," sagði Ricketts við Observer.

Ricketts vildi ekki nafngreina Heimi en það er ljóst að fyrsta verkefni hans verður landsleikur gegn Argentínu sem fer fram síðar í septembermánuði.