mið 14.sep 2022
Besta deild kvenna: Jafnt í markaleik á Akureyri
Sandra María Jessen kom að öllum mörkum Þórs/KA
Kristín Erna skoraði tvö fyrir ÍBV
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Þór/KA 3 - 3 ÍBV
0-1 Kristín Erna Sigurlásdóttir ('16 )
1-1 Haley Marie Thomas ('17 , sjálfsmark)
1-2 Madison Elise Wolfbauer ('47 )
2-2 Sandra María Jessen ('67 )
2-3 Kristín Erna Sigurlásdóttir ('69 )
3-3 Sandra María Jessen ('85 )
Lestu um leikinn

Þór/KA og ÍBV gerðu sex marka jafntefli, 3-3, er liðin áttust við í 15. umferð Bestu deildar kvenna á Salt Pay-vellinum á Akureyri í dag, en það var Sandra María Jessen sem gerði jöfnunarmark Þór/KA þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Eyjakonur sóttu án afláts í byrjun leiks og kom fyrsta markið á 16. mínútu. Kristín Erna SIgurlásdóttir skoraði þá eftir fyrirgjöf frá Olgu Sevcovu en innan við mínútu síðar jafnaði Þór/KA eftir að Haley Marie Thomas stýrði fyrirgjöf Söndru Maríu í eigið net.

Staðan í hálfleik 1-1. ÍBV byrjaði seinni hálfleikinn alveg eins og þann fyrri. Madison Elise Wolfbauer kom liðinu yfir á 47. mínútu eftir hornspyrnu en Sandra María jafnaði tuttugu mínútum síðar með frábæru skoti fyrir utan teig.

Kristín Erna kom Eyjakonum aftur í forystu tveimur mínútum síðar eftir langa sendingu frá Júlíönu Sveinsdóttur. Annað markið sem Kristín skorar í leiknum.

Heimakonur pressuðu í leit sinni að jöfnunarmarki. Tiffany Janae McCarty kom boltanum í netið á 84. mínútu en markið dæmt af en það hafði engin áhrif á Þór/KA sem skoraði í næstu sókn.

Tiffany átti fyrirgjöf sem Sandra María stangaði í netið og tryggði þar með Þór/KA stig. Lokatölur 3-3. Þór/KA er í 8. sæti deildarinnar með 14 stig en ÍBV í 5. sæti með 23 stig.