fim 15.sep 2022
Phil Jones ekki í úrvalsdeildarhópnum
Phil Jones
Enski varnarmaðurinn Phil Jones mun væntanlega ekki fá leik fyrir aðallið Manchester United fram að áramótum en hann er ekki skráður í úrvalsdeildarhóp liðsins.

Jones, sem er þrítugur, hefur verið hjá United í ellefu ár og spilað 229 leiki ásamt því að skora sex mörk.

Síðustu fjögur tímabil hefur hann gengið í gegnum erfið meiðsli og aðeins spilað þrettán leiki í heildina.

Hann fékk fimm leiki á síðustu leiktíð en mun væntanlega ekki fá leik á þessari.

Jones var ekki í Evrópudeildarhópnum sem var tilkynntur í síðustu viku og þá er hann ekki í úrvalsdeildarhópnum. Eini möguleikinn fyrir hann til að spila er í deildabikarnum en það verður að teljast afar ólíklegt.

United hefur reynt að losa hann frá félaginu síðustu ár en leikmaðurinn ekki viljað fara. Hann var orðaður við mörg félög undir lok síðasta glugga, en ákvað að vera áfram. Jones mun væntanlega spila fyrir U23 ára liðið fram að áramótum.