fim 15.sep 2022
Greenwood birtist á lista Man Utd - Staðan óbreytt
Mason Greenwood
Mason Greenwood, leikmaður Manchester United á Englandi, birtist á lista félagsins fyrir úrvalsdeildarhópinn sem var tilkynntur í gær, en það vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum.

Greenwood, sem er 20 ára gamall, var handtekinn í lok janúar á þessu ári eftir að fyrrverandi kærasta hans sakaði hann um alvarlega líkamsárás og nauðgun á Instagram.

Hún var með myndir, myndbönd og hljóðupptökur til að sanna mál sitt og var Greenwood færður í járnum á lögreglustöðina í Manchester.

United setti Greenwood í bann og hefur hann ekkert spilað síðan en málið er enn í ferli hjá lögreglu.

Það vakti því athygli þegar United birti lista yfir þá leikmenn sem eru í úrvalsdeildarhópnum fyrir tímabilið. Þar sem hann er uppalinn hjá félaginu og hefur ekki náð 21 árs aldri þá þarf félagið ekki að skrá hann sérstaklega í hópinn.

Nafn hans var á lista United yfir leikmenn sem eru undir 21 árs en stuðningsmenn töldu að þetta væri vísbending um að rannsókn málsins væri lokið og hann á leið aftur í liðið, en svo er ekki.

Það nýjasta úr máli Greenwood er það að hann mætti fyrir dómara í júní. Leikmaðurinn er laus gegn tryggingu og áfram í banni hjá United á meðan málið er í ferli.