fim 15.sep 2022
Groenen fer frá Man Utd til PSG (Staðfest)
Groenen í leiknum gegn Íslandi á dögunum.
Miðjumaðurinn Jackie Groenen hefur yfirgefið herbúðir Manchester United og er hún komin yfir til Paris Saint-Germain.

Hún skrifar undir þriggja ára samning við Parísarfélagið.

Samningur hennar við Man Utd átti að enda eftir tímabilið og hefur áhuginn á henni verið mikill í sumar þess vegna. United hefur ekki viljað selja hana en núna kom greinilega tilboð sem var of gott til þess að hafna.

Groenen segist hafa notið hverrar mínútu með Man Utd en núna sé kominn tími á nýtt ævintýri. Hún segist sérstaklega spennt fyrir því að spila í Meistaradeildinni með PSG.

Þessi öflugi miðjumaður hefur leikið 92 landsleiki fyrir Holland og var hún í byrjunarliðinu í 1-0 sigrinum gegn Íslandi á dögunum.

Íslenski sóknarmaðurinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir leikur með PSG og er hún að fá liðsfélaga í hæsta gæðaflokki.