lau 17.sep 2022
Síðasta umferð fyrir tvískiptingu - Sjö atriði til að fylgjast með í dag
Ná Framarar að koma sér í efri hlutann? Skorar Gummi Magg?
Arnar Grétarsson mætir Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

KR mætir Víkingi.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson

22. umferð Bestu deildarinnar verður leikin í dag laugardag, síðasta umferðin áður en kemur að tvískiptingunni, nýja fyrirkomulaginu. Fimm aukaumferðir munu þá bætast við og leikið í efri og neðri deild.

Liðin verða auðvitað áfram með öll stigin sem þau höfðu unnið sér inn en nú verða til spennandi innbyrðis viðureignir. Fleiri 'sex stiga leikir' eins og það er kallað. Það er búið að raða því upp hvaða lið í hvaða sæti mætast og hvenær.

Sjá leikjaplan efri deildar

Sjá leikjaplan neðri deildar

Beinar textalýsingar:
14:00 Breiðablik - ÍBV
14:00 Víkingur - KR
14:00 Valur - KA
14:00 Stjarnan - FH
14:00 Fram - Keflavík
14:00 ÍA - Leiknir

Hér má sjá sjö atriði sem vert er að fylgjast með í dag.

- Fram og Keflavík vonast eftir efri hlutanum
Fram og Keflavík mætast innbyrðis vitandi það að sigur getur gefið miða í efri deildina. Liðin eru þremur stigum á eftir Stjörnunni sem nægir jafntefli gegn FH til að tryggja sér sæti í efri hlutanum. Það verður sótt til sigurs í Úlfarsárdalnum!

- Eykst pressan í Garðabænum?
'No comment' segja menn í Garðabænum um þær slúðursögur sem hafa verið í gangi varðandi þjálfaramál félagsins. Eftir öfluga byrjun á tímabilinu hefur Stjarnan tapað fimm leikjum í röð og það yrði harkalegur skellur fyrir liðið ef það tapar gegn FH og missir mögulega af efri hlutanum.

- Gummi getur færst nær gullskónum
Nökkvi Þeyr Þórisson er búinn að yfirgefa deildina, hann er markahæstur með 17 mörk en Guðmundur Magnússon í Fram er með 14. Gummi getur færst nær gullskónum gegn Keflavík en Ísak Snær Þorvaldsson í Breiðabliki, sem er með 13 mörk, tekur út leikbann og spilar ekki gegn ÍBV.

- Arnar Grétars mætir liðinu sem hann er orðaður við
Taldar eru litlar líkur á því að Ólafur Jóhannesson verði áfram með Val eftir tímabilið og Heimir Hallgrímsson er ekki lengur möguleiki fyrir Val. Arnar Grétarsson, þjálfari KA, hefur verið sterklega orðaður við starfið á Hlíðarenda og viðurkennir sjálfur að hugur sinn leiti suður. Valur gegn KA, Óli Jó gegn Arnari. Áhugavert.

- Ísakslausir Blikar geta styrkt stöðuna á toppnum
Ísak Snær verður í banni þegar Breiðablik mætir ÍBV. Markalaust var í viðureign þessara liða á loðnum Hásteinsvelli fyrr á tímabilinu en nú er það rennislétt gervigrasið í Kópavogi. Víkingar eiga erfiðan leik gegn KR og möguleiki fyrir Blika að styrkja stöðu sína á toppi deildarinnar umtalsvert.

- Alltaf fjör og læti þegar Víkingur mætir KR
Maður fær vatn í munninn þegar þessi lið mætast, sama þó Sölvi og Kári séu ekki lengur innan vallarins. KR-ingar, sem innsigluðu sæti í efri hlutanum um síðustu helgi, eru særðir eftir 0-3 tap í deildinni fyrr í sumar og bikarleikinn magnaða þar sem allt stefndi í framlengingu þegar Víkingar tryggðu sér sigur í blálokon.

- Botnliðin berjast
Síðast en ekki síst. Liðin í fallsætunum eigast við á Akranesi; ÍA - Leiknir. ÍA er í neðsta sæti eftir að hafa fengið skell gegn FH í síðustu umferð og mætir Leikni í öðrum innbyrðis fallbaráttuslag. Breiðhyltingar eiga möguleika á því að koma sér upp úr fallsæti með sigri og hagstæðum úrslitum. Það kæmi manni á óvart ef eitthvað verður gefið eftir á Skaganum.