fim 15.sep 2022
Ben Foster leggur hanskana á hilluna
Markvörðurinn Ben Foster hefur tilkynnt að hanskarnir séu komnir á hilluna. Þessi fyrrum markvörður Manchester United, Watford og West Bromwich Albion er 39 ára.

Foster féll með Watford úr ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og reyndist það hans síðasta ár í boltanum. Samningur hans rann út og hann yfirgaf félagið.

Hann vann deildabikarinn með Manchester United 2009 og 2010.

Undanfarna mánuði hefur hann verið virkur á samfélagsmiðlum en hann er með vinsæla rás á Youtube, 'The Cycling GK', og heldur úti hlaðvarpsþætti sem kallast 'Fozcast - The Ben Foster Podcast'.