fim 15.sep 2022
Tilgangslaust að taka Pogba með ef hann er ekki heill
Paul Pogba
Didier Deschamps, þjálfari franska landsliðsins, segist ekki ætla að taka Paul Pogba með á HM í Katar nema hann verði í leikformi.

Pogba verður frá næstu tvo mánuði eftir að hafa farið í aðgerð á hné og er hann því í kappi við tímann að ná HM í Katar.

Hann hefur ekkert spilað fyrir Juventus á tímabilinu síðan hann kom til félagsins á frjálsri sölu frá Manchester United í sumar.

Massimo Allegri, þjálfari Juventus, sagði að Pogba myndi ekki ná HM og að hann væri að búast við honum aftur í janúar. Deshamps segir að ef Pogba ætli sér að eiga möguleika á að fara með á HM þá verði hann að koma sér í leikform.

„Hann mun ekki koma bara af því hann er mikilvægur hluti af hópnum. Ef hann hefur ekki spilað fyrir mótið og er ekki í frábæru leikformi þá er þetta tilgangslaust. Hann vill það ekki heldur," sagði Deschamps.