fös 16.sep 2022
Aron Einar í landsliðshópnum
Aron Einar Gunnarsson.
Hópurinn verður opinberaður í dag. KSÍ er með fréttamannafund klukkan 13:15.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Í dag verður landsliðshópur Íslands fyrir komandi verkefni opinberaður en fréttamannafundurinn í Laugardalnum verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net.

Talað hefur verið um að Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði gullkynslóðarinnar og leikmaður Al Arabi, snúi aftur í landsliðið en mbl.is fullyrðir að Aron sé í hópnum sem verður opinberaður eftir hádegi.

Ríkis­sak­sóknari stað­festi í síðasta mánuði niður­fellingu Héraðs­sak­sóknara á kyn­ferðis­brota­máli sem höfðað var gegn Aroni. Þar með er frjálst fyrir Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfara að velja hann í hópinn.

Sögur segja að tveir aðrir úr 'gamla bandinu' verði einnig í hópnum; Alfreð Finnbogason og Jóhann Berg Guðmundsson. Jóhann Berg er reyndar að glíma við einhver meiðsli og spurning hvort þau komi í veg fyrir þátttöku hans.

Heyrst hefur að Albert Guðmundsson verði ekki í hópnum en Sæbjörn Steinke fréttamaður Fótbolta.net skoðaði það í gær hvernig hópurinn gæti litið út.

Mögulegur úrslitaleikur í Albaníu
Ísland er að fara að mæta Venesúela í vináttulandsleik í Austurríki og svo Albaníu í Tirana í Þjóðadeildinni. Leikur Albaníu og Íslands í B-deild Þjóðadeildarinnar fer fram þann 27. september og gæti endað sem úrslitaleikur um sæti í A-deildinni.

Aðeins þrjú lið eru í riðlinum (þar sem Rússlandi var meinuð þátttaka og fellur sjálkrafa) og þremur dögum fyrir leikinn (24. september) mætast Ísrael og Albanía.

Ef Albanía vinnur þann leik þá verður hreinn úrslitaleikur milli Albaníu og Íslands þar sem Ísland verður að vinna til að hirða toppsætið og komast þar með upp í A-deildina. Ef Ísrael og Albanía gera jafntefli þá getur Ísland einnig með sigri í Albaníu og betri markatölu en Ísrael tekið efsta sætið.