fös 16.sep 2022
Þurfti eitthvað að sannfæra Aron um að koma aftur í hópinn?
Aron Einar Gunnarsson og Arnar Þór Viðarsson.
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, er kominn aftur inn í landsliðshópinn eftir langa fjarveru.

Aron og Eggert Gunnþór Jónsson voru kærðir síðasta haust en kona sakaði þá um að hafa nauðgað sér í Kaupmannahöfn árið 2010.

Héraðs­sak­sóknari felldi niður málið í maí­mánuði síðast­liðnum en sá úr­skurður var kærður og tók ríkis­sak­sóknari þá málið fyrir og er niður­staðan sú að málið hefur nú verið fellt niður.

Aron getur því snúið aftur í hópinn og hann gerir það.

„Það vita allir hvað Aron Einar getur gefið þessu liði. Það var aldrei spurning að velja leiðtoga eins og Aron í liðið," sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, á fréttamannafundi í dag.

Aron gaf frá sér yfirlýsingu í fyrra þar sem hann kvaðst ósáttur og sagðist vera settur saklaus til hliðar í nýrri útilokunarmenningu KSÍ.

Undirritaður spurði landsliðsþjálfarann hvort það hefði eitthvað þurft að sannfæra Aron til þess að koma aftur í hópinn.

„Hann hefur verið mjög jákvæður eftir að við byrjuðum að tala saman fyrir þetta verkefni og ég veit að honum hlakkar til að hjálpa til," sagði Arnar.