fös 16.sep 2022
Arnar um að spila við Venesúela: Ekkert sem landsliðsþjálfari er að pæla í
Landsliðsþjálfarinn
Salomon Rondon er líklega þekktasti leikmaður Venesúela
Mynd: EPA

Úr leik Íslands og Albaníu á Laugardalsvelli í júní. Sá leikur endaði með jafntefli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Í dag var tilkynntur landsliðshópur fyrir komandi leiki hjá A-landsliðinu og á sama tíma leiki hjá U21 árs landsliðinu.

Framundan hjá A-landsliðinu eru tveir leikir á næstu vikum. Fyrst mætir liðið Venúsuela í æfingaleik í Austurríki og svo mætir liðið Albaníu í möguleum úrslitaleik í Þjóðadeildinni. Svo að sá leikur verði úrslitaleikur má Albanía ekki tapa gegn Ísrael í næstu viku. Eftir fréttamannafund var landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson til viðtals.

„Við byrjum á þessum æfingaleik sem okkur ber skylda að spila. Það sem við reyndum að gera var að fá leik sem fyrst í glugganum, þess vegna spilum við á fimmtudegi. Ísreal-Albanía er svo á laugardegi, þannig það gefur okkur tvo auka daga í endurheimt fyrir leikinn gegn Albaníu. Við þurfum að ferðast til Albaníu þannig við lögðum þetta upp með að vera með grunnbúðir í Austurríki og verðum þar í heila viku. Eftir leik Ísreals og Albaníu getum við farið að búa okkur undir leikinn við Albaníu," sagði Arnar.

„Það verður alls engin tilraunastarfsemi í leiknum á móti Venesúela, við erum með góða mynd af því hvernig sjáum hlutina, hvar við stöndum. Við erum búnir að spila marga leiki þetta árið og höfum verið að vinna í ákveðnum hlutum og höldum áfram að vinna í þeim. Á móti Venesúela snýst þetta líka um að stýra álaginu, ákveðnir leikmenn þurfa 90 mínútur, aðrir þurfa kannski eitthvað minna."

„Við vonumst svo til þess að við séum að fara í stóran úrslitaleik í Albaníu, að fá að taka þátt í svona fyrsta alvöru leiknum í tvö ár væri frábær reynsla og gott skref fyrir liðið okkar."


KSÍ gerði samning við UEFA um að spila ákveðinn fjölda landsleikja á þessu ári og því var ljóst að Ísland yrði að spila meira en einn leik í glugganum. Hefði Arnar persónulega viljað sleppa þessum leik?

„Nei nei, ég vil mikið frekar spila leiki, sérstaklega þegar maður getur stjórnað því svolítið hvenær hann er. Í júní var það erfiðara, San Marínó leikurinn var þriðji leikur í verkefninu og ómögulegt fyrir okkur að stýra hvenær hann var á meðan þessi leikur er fyrsti."

„Maður lærir alltaf mest á því að spila leiki og það er líka frábært tækifæri fyrir leikmennina að sýna mér, Jóa og 'staffinu' hvar þeir standa og hvar þeir eru og gera kröfu á sitt sæti í liðinu."


Voru margir andstæðingar sem komu til greina? Af hverju varð Venesúela fyrir valinu?

„Það komu mjög margir andstæðingar til greina. Í fyrsta lagi fannst mér og Jóa mikilvægt að fá ekki leik við of sterka þjóð - topp tíu þjóð á FIFA listanum. Það hefði kannski tekið of mikla orku þó að maður læri alltaf mikið af þeim leikjum líka. Það voru margar Afríkuþjóðir sem voru að leita að leikjum núna og ef ég byrja að telja það allt saman upp þá verðum við hér í allt kvöld."

Það er ekki jákvæður stimpill á Venesúela og sem dæmi fær leiðtogi þjóðarinnar ekki boð í jarðarför Elísabetar Bretlandsdrottningar, einn af fáum leiðtogum sem fá ekki slíkt boð. Arnar var spurður hvort að eitthvað hefði verið rætt um stöðuna í Venesúela áður en samþykkt var að spila landsleik við þjóðina?

„Nei, ég hef ekkert um það að segja. Ég er bara að velja landsliðshóp og við förum að spila tvo landsleiki. Það er ekkert sem landsliðsþjálfari er að pæla í," sagði Arnar.

Viðtalið er talsvert lengra og var Arnar spurður út í Guðlaug Victor Pálsson, Albert Guðmundsson, fjölda varnarmanna og Aron Einar Gunnarsson í viðtalinu sem sjá má í heild sinni í spilaranum að ofan.