fös 16.sep 2022
„Arnar ákveður hópinn sinn og ég sé þá hvaða leikmenn ég hef úr að velja"
Kolli ætti að vera í fínu standi
Læknateymi landsliðsins mun meta stöðuna á Kristalli
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Tölfræðin okkar er þannig að við erum að nálgast bestu liðin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ég vil að leikmennirnir græði á þessum leikjum og geti nýtt þessa leiki í framtíðinni bæði fyrir sig og okkur þegar þeir fara í A-landsliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

„Verkefnið leggst mjög vel í mig, það er búið að vera mikið að gera hjá strákunum en ég er búinn að bíða dálítið eftir þessu í allt sumar - loksins komið að því. Hópurinn er okkar er góður, krefjandi og skemmtilegt að velja hópinn og góðir leikmenn sem eru fyrir utan hóp. Ég hlakka til að hitta strákana og byrja vinna," sagði Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21 landsliðsins, við Fótbolta.net í dag.

Framundan hjá U21 eru tveir leikir í umspili um sæti á lokamóti EM næsta sumar. Ísland mætir Tékklandi heima og að heiman og fer fyrri leikurinn fram á Víkingsvelli næsta föstudag.

„Tékkneska liðið er mjög gott, spiluðu mjög góðan riðil, spiluðu góða leiki við England (topplið riðilsins), unnu örugga heimasigra og ég var mjög hrifinn af útileikjunum hjá þeim. Það voru mjög jafnir leikir á erfiðum stöðum en þeir unnu þá samt. Þeir hafa beitt tveimur leikaðferðum þannig við þurfum að vera viðbúnir fyrir ýmislegt og verðum það. Þetta byrjar á föstudaginn, verður svakalegur leikur þannig að ef þú ert ekki búinn að tryggja þér miða þá myndi ég drífa í því," sagði Davíð.

Sigurvegarinn í riðli Íslands í undankeppninni var Portúgal. Svipar tékkneska liðið til þess portúgalska?

„Portúgal er líklega sterkasta liðið í Evrópu ef við lítum á alla þætti. Nei, það er ekki hægt að bera það saman nema að því leyti að það er nokkuð skýr leikaðferð hjá báðum liðum. Tékkarnir eru vel rútenaðir og svoleiðis en það er ekki hægt að bera þessi lið saman."

Tvær breytingar eru á hópnum frá því í síðasta verkefni, Logi Hrafn Róbertsson glímir við meiðsli og Birkir Heimisson dettur úr hópnum. Inn koma Logi Tómasson og Valgeir Lunddal Friðriksson.

„Þú skoðar bara hverju sinni, það er stór hópur sem þú þarft að líta á og ég er bara ofboðslega ánægður með þennan hóp sem ég valdi og hlakka til að fara í þessa leiki með þeim. Þetta eru fullt af efnilegum leikmönnum sem eiga framtíðina fyrir sér."

Kolbeinn Þórðarson er að koma til baka eftir meiðsli og þá var sagt frá því í lok síðasta mánaðar að Kristall Máni Ingason væri axlarbrotin. Hvernig er staðan á þeim?

„Kolli er búinn að æfa vel og staðan á honum á bara að vera fín. Þeir (Lommel) eru búnir að vera trappa hann aðeins upp. Tímalínan hjá Kristalli er aðeins óskýr, það kemur betur í ljós í næstu viku. Hver dagur skiptir máli núna. Hann kemur til liðs við okkur og við skoðum hann betur, sjáum hver staðan verður."

Er Kristall tæpur fyrir fyrri leikinn?

„Já, á þessum tímapunkti já. Við skulum samt sjá hvað læknarnir segja, þeir vita meira um þetta en ég."

Valgeir kemur úr A-landsliðinu frá því síðasta verkefni. Vildi Davíð fá fleiri leikmenn úr A-landsliðinu fyrir þessa mikilvægu leiki?

„Þetta er ekki þannig að maður sé að frekjast eða eitthvað þannig. Það er bara tekin staðan hverju sinni, núna tekin endanleg ákvörðun. Arnar ákveður hópinn sinn og ég sé þá hvaða leikmenn ég hef úr að velja. Þetta er mjög efnilegir leikmenn sem við erum með, margir leikmenn sem munu spila mikilvægt hlutverk með A-landsliðinu á komandi árum. Ég er bara mjög ánægður með hópinn minn."

Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson tjáði sig um U21 landsliðið á fréttamannafundi fyrr í dag. Hann sagði að rætt hefði verið um þann möguleika að menn færu úr A-landsliðinu í U21 í miðju verkefni.

Davíð segir að það megi búast við svakalegum leik næsta föstudag. „Þetta eru tvö góð lið og við ætlum að fara inn í þennan glugga að þetta sé úrslitaleikur. Við erum búnir að vinna okkur inn að fara í úrslitaleik, verðskuldað, og það er stórt. Ég vil að leikmennirnir græði á þessum leikjum og geti nýtt þessa leiki í framtíðinni bæði fyrir sig og okkur þegar þeir fara í A-landsliðið. Það er svona það fyrsta, við erum búnir að byggja hvern glugga upp mjög markvisst og í júní áttum við að vera flesta hluti á hreint. Við þurfum að halda áfram með hugrekki, einbeitingu og jákvæða orku eins og við reynum að sýna í hvert skipti. Við þurfum að nýta hvernig glugga í að bæta okkur."

„Það er það sem ég vil sjá. Tölfræðin okkar er þannig að við erum að nálgast bestu liðin, erum ekki búin að ná þeim en erum að reyna nálgast þau hægt og rólega. Við getum spilað við þau í júní ef það fer vel. Af hverju ekki að reyna gera það,"
sagði Davíð.

Viðtalið er aðeins lengra og má sjá það í heild sinni í spilaranum að ofan.