fös 16.sep 2022
Gleymdi sér og kærastan þurfti að sussa á hann - „Takk KA"
Mér fannst þessi gluggi, þetta lið og tækifærin sem bjóðast hérna það stór að mér fannst þetta rökrétt skref þegar ég horfði á stóru myndina.
Ætla að halda áfram að leggja á mig og reyna mitt besta til að hjálpa liðinu að fara up
Mynd: Beerschot

Haddi (Hallgrímur Jónasson) og Addi Grétars (Arnar Grétarsson).
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ótrúleg liðsframmistaða sem ég vissi að myndi koma
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson

Eins og kannski sést í sumar þá finnst mér betra að geta komið inn á völlinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Nýjasti atvinnumaður okkar Íslendinga, Nökkvi Þeyr Þórisson, var til viðtals í Innkastinu í vikunni. Nökkvi var keyptur til belgíska félagsins Beerschot sem spilar í næstefstu deild.


Hærra tempó og nýtt tungumál
Nökkvi þarf núna að læra nýtt tungumál. Hann segir að allir í Belgíu tali mjög góða ensku. „Við erum látnir fara í tungumálakennslu einu sinni í viku til að læra... ég held að þetta sé hollenska sem er töluð hérna."

Nökkvi hefur ekki verið lengi í Belgíu en var þrátt fyrir það beðinn um að meta styrkleikann á deildinni miðað við þá Bestu. „Tempóið er hærra og það eru fleiri góðir leikmenn. Þetta lið náði að halda þónokkrum úrvalsdeildarleikmönnum sem er mjög sterkt. Ég er bara nýbyrjaður hér, það er erfitt að átta sig á getustiginu miðað við heima. Fyrstu kynni þá er það hærra og hærra tempó."

Beerschot féll úr efstu deild í vor og ætlar sér beint upp aftur. „Það eru þrjú lið sem eru svona helstu kandídatarnir til að fara upp. Beerschot er alls staðar talið eitt líklegast liðið til að fara upp. Bæði út af því hvernig liðið fjárfesti í sumar - styrkleiki leikmannahópsins - og spilamennskunni. Liðið er að spila mjög góðan bolta."

Þurfti að sussa á Nökkva
Þegar Fótbolti.net ræddi við Nökkva var hann staddur á hóteli í Antwerpen en næsta mál á dagskrá hjá honum var að skoða íbúðir. Hann horfði á KA spila gegn Breiðabliki á hótelinu.

„Ég horfði og ég var límdur við skjáinn. Það var varla hægt að tala við mig ég var svo stressaður. María (Lillý Ragnarsdóttir, kærasta Nökkva) þurfti að sussa á mig því ég öskraði svo hátt (þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði úr vítinu í lokin). Ég gleymdi að ég væri á hótelherbergi, ég fagnaði svo mikið."

„Það sem maður var stressaður... en ótrúlega stoltur af strákunum. Ég vissi að þetta myndi gerast af því þetta er svo góður hópur og gott lið. Þó að ég hafi tekið ákvörðun um að fara þá erum við með það marga góða leikmenn að ég hafði engar áhyggjur af þessu. Þetta er þannig lið að menn þjappa sér saman og menn stíga upp eins og við sáum í leiknum. Ótrúleg liðsframmistaða sem ég vissi að myndi koma."


„Rökrétt skref þegar ég horfði á stóru myndina"
Var einhver hjá KA sem reyndi að tala þig af því að fara til Belgíu?

„Nei, maður þarf samt alltaf að vega og meta. Ég hefði vissulega fengið boð um að fara út í janúar og það er bara spurning hvaða boð það væru. Mér fannst þessi gluggi, þetta lið og tækifærin sem bjóðast hérna það stór að mér fannst þetta rökrétt skref þegar ég horfði á stóru myndina. Maður þarf að hlusta á sjálfan sig og taka ákvörðun út frá því. Ég er mjög ánægður með þá ákvörðun sem ég tók. Ég er gríðarlega spenntur fyrir framhaldinu og ætla að halda áfram að leggja á mig og reyna mitt besta til að hjálpa liðinu að fara upp sem er eitthvað sem ég hef mikla trú á að við gerum."

Ólýsanlegt þakklæti
Ertu þakklátur KA fyrir að segja já við tilboðinu frá Beerschot?

„Það er eiginlega ekki hægt að setja það í orð hversu þakklátur ég er KA, sérstaklega Adda Grétars, Sævari (Péturssyni), Hadda og öllu þjálfarateyminu. Það er ekki hægt að lýsa því hversu þakklátur maður er. Addi á stóran þátt í að ég hafi náð að taka þetta skref núna, maður er ævinlega þakklátur fyrir það. Svo Sæsa P fyrir að hafa tekið tilboðinu því þetta hefur ekki verið auðveld ákvörðun. Það er ekki hægt að lýsa því hversu þakklátur ég er Sæsa fyrir að hafa leyft mér að grípa drauminn."

Fannstu fyrir létti þegar KA vann Breiðablik í fyrsta leik eftir að þú fórst?

„Það er alltaf léttir þegar ég sé KA vinna en það var kannski extra léttir út frá því að maður tók þessa ákvörðun. Ég var bara að hugsa um mína framtíð og minn feril þarna. Ég vona bara að KA og þjálfararnir skilji það - sem ég veit að þeir gera. Ég er búnn að fá skilaboð og hringingar frá öllum. Það hjálpaði mikið og maður kann virkilega að meta það. Maður er bara ævinlega þakklátur fyrir þjálfarana sem maður hafði þarna, stjórnina, Sæsa P og Adda Grétars. Maður væri ekki hér án þeirra."

Fór á vinstri kantinn í fjarveru Grímsa
Nökkvi spilaði aðallega úti á vinstri kantinum hjá KA í sumar. Var það ákvörðun sem tekin var í vetur?

„Við missum Grímsa í meiðsli í vetur og þá fer Addi að nota mig meira vinstra megin. Ég var mun vanari að spila úti vinstra megin þegar ég var yngri. Ég var í fyrsta sinn að spila úti hægra megin þegar ég kom til KA. Eins og kannski sést í sumar þá finnst mér betra að geta komið inn á völlinn. Þetta var ekkert nýtt fyrir mér að spila vinstra megin en gaman að fá sénsinn á því."

Beerschot sækir Nökkva sem framherja eða 'inside forward'. „Hjá KA fara bakverðirnir svo hátt upp að kantmennirnir fara inn á völlinn. Þeir vita svo að ég get leyst kantinn, er með hraða og hlaupagetu."

Væri gaman að enda sem markakóngur
Nökkvi er sem stendur markahæstur í Bestu deildinni með sautján mörk skoruð. Hann er sem stendur með þriggja marka forskot á Guðmund Magnússon sem er sá næst markahæsti. Vonar hann að í lok móts verði hann ennþá markahæstur?

„Ég held að ég hafi verið eini maðurinn á Íslandi sem var ekkert að spá í þessum markakóngstitli eða markametinu. Ég var bara að hugsa um næsta leik og reyna mitt besta svo að KA myndi vinna. Það væri alveg gaman að vera staddur í öðru landi og vinna markakóngstitilinn. Ef það gerist þá gerist það bara, þetta snýst fyrst og fremst um að KA vinni."

Nökkvi var spurður út í A-landsliðið og má heyra hann ræða það í viðtalinu í spilaranum að neðan. Hann var ekki valinn í hópinn að þessu sinni en landsliðsþjálfarinn nefndi þó Nökkva á fréttamannafundinum.

Eitthvað að lokum sem Nökkvi vildi koma að?

„Bara hvað maður er þakklátur fyrir KA og alla liðsfélagana í kring. Þetta hefði aldrei verið mögulegt án frábærra liðsfélaga og frábærs liðs sem KA er. Og aftur, þjálfarana, maður getur ekki lýst því í orðum hversu þakklátur maður er. Takk KA," sagði Nökkvi að lokum.

Áðurbirt efni úr viðtalinu
Tækifærið geggjað en ákvörðunin mjög erfið - „Leið eins og ég væri aðeins að svíkja liðið"
„Maður upplifði það um leið og maður kom inná völlinn"

Næsti leikur Beerschot er gegn Virton á sunnudag. Liðið er sem stendur í 5. sæti deildarinnar, með sjö stig eftir fimm umferðir.