lau 17.sep 2022
Óli Jó: Að tapa þessum leik er með ólíkindum
„Mér fannst fyrri hálfleikurinn hjá okkur mjög góður og nánast með ólíkindum að við skyldum ekki setja inn nokkur mörk þá. Við hefðum mátt vera betri í seinni hálfleik en að tapa þessum leik er með ólíkindum," sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir tap gegn KA í dag.

„Það vantaði bara að setja boltann í markið, klára færin sín."

Um sigurmark KA:

„Ég sá það svo sem ekki, er ekki búinn að sjá það í þessum töluðu orðum og get ekki svarað því," sagði Óli sem gat ekki heldur metið rauða spjaldið á Patrick Pedersen.

Um framhaldið:

„Þetta eru ekki góð úrslit fyrir okkur og mikil brekka að ná upp í þetta þriðja sæti. Ég held að það þurfi kraftaverk til að ná því. Það er ekki farið en það þarf kraftaverk til þess að við náum því. Það er ennþá möguleiki."

Óli var spurður út í landsliðsvalið, hann var á sínum tíma landsliðsþjálfari og þá fékk hann ekki að velja sitt sterkasta lið þar sem leikmenn voru kallaðir í U21 landsliðið. Í dag er staðan önnur. Hefuru einhverja skoðun á því?

„Ég treysti bara þjálfurunum til að sjá um þetta," sagði Óli að lokum.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum að ofan. Óli er þar einnig spurður út í Arnór Smárason sem kom ekki við sögu í dag.