lau 17.sep 2022
Ítalía: Arftaki Scamacca gerði sigurmarkið
M'Bala Nzola kom inn af bekknum og gerði sigurmark í grannaslag.
Agustin Alvarez er landsliðsmaður Úrúgvæ.
Mynd: EPA

Það fóru þrír leikir fram í ítalska boltanum í dag þar sem Mikael Egill Ellertsson kom inn af bekknum í 2-1 sigri Spezia gegn nágrönnum sínum í Sampdoria.Abdelhamid Sabiri kom gestunum frá Genúa yfir með flottu marki snemma leiks en Jeison Murillo varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark um það bil mínútu síðar.

Það ríkti þokkalegt jafnræði með liðunum en færanýtingin gerði gæfumuninn þar sem M'Bala Nzola skoraði mikilvægt sigurmark fyrir Spezia á 72. mínútu. Gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Mikael Egil og félaga sem munu gera allt í sínu valdi til að forðast fall í annað ár.

Spezia er með 8 stig eftir 7 umferðir. Sampdoria er aðeins með tvö stig.

Spezia 2 - 1 Sampdoria
0-1 Abdelhamid Sabiri ('11 )
1-1 Jeison Murillo ('12 , sjálfsmark)
2-1 M'Bala Nzola ('72 )

Bologna tapaði þá heimaleik gegn Empoli þar sem fyrirliðinn Filippo Bandinelli skoraði eina markið í skemmtilegri viðureign sem hefði hæglega getað gefið fleiri mörk.

Bologna er með sex stig og Empoli sjö eftir þá viðureign. Sassuolo og Torino eru með níu og tíu stig eftir sína viðureign.

Þar skoraði nýi framherjinn Agustin Alvarez eina mark leiksins undir lok uppbótartímans. Alvarez var skipt inn á 86. mínútu í stöðunni 0-0 og gerði hann sigurmarkið eftir góða fyrirgjöf frá bakverðinum Rogerio. 

Gríðarlega dramatískt sigurmark sem kom á síðustu sekúndu uppbótartímans.

Bologna 0 - 1 Empoli
0-1 Filippo Bandinelli ('75 )

Torino 0 - 1 Sassuolo
0-1 Agustin Alvarez ('93)