sun 18.sep 2022
Úkraínumennirnir verða með Þrótti í Lengjudeildinni
Kostyantyn Iaroshenko.
Kostyantyn Pikul.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Úkraínumennirnir Kostyantyn Iaroshenko og Kostyantyn Pikul hafa skrifað undir nýja tveggja ára samninga við Þrótt Reylkjavík.

„Þeir félagar léku saman í næst efstu deild í Úkraínu með liðinu Alyans, þar til styrjöldin hrakti þá að heiman, og hafa nú dvalið á Íslandi frá síðasta vori," segir á heimasíðu Þróttar.

„Þeir hafa báðir leikið frábærlega með Þrótti í sumar og óhætt að segja að þeir hafi verið í lykilhlutverkum í liðinu sem tryggði sér fyrir skemmstu sæti í Lengjudeild að ári."

Iaroshenko er sóknarsinnaður og hefur á sínum langa ferli leikið í efstu deild í bæði Rússlandi og Úkraínu svo eitthvað sé nefnt.

Kostyantyn Pikul er varnarmaður hefur leikið mestan hluta feril síns með Alyans og verið fyrirliði þess síðustu árin, en það var í 2. sæti næst efstu deildar í Úkraínu þegar keppni var hætt vegna stríðsátaka snemma á þessu ári.

Þeir voru algjörir lykilmenn þegar Þróttur tryggði sér 2. sæti 2. deildar og þar með sæti í Lengjudeildinni á næsta ári.

„Við vorum að leita að hafsent og sköpunarglöðum miðjumanni. Við fengum þá frá sama aðila sem var í sambandi við okkur. Þeir hafa reynst okkur vel, eru góðir karakterar og hjálpa innan vallar og utan," sagði Ian Jeffs í viðtali við Fótbolta.net í ágúst þegar hann ræddi um Úkraínumennina.

„Það er mikil reynsla sem kemur með þeim, sérstaklega með Iaro. Frábærir leikmenn sem hafa styrkt okkur gríðarlega mikið. Rétt fyrir mót vorum við ekki með mannskap til að stefna á að fara upp um deild. Þessir leikmenn sem komu inn rétt fyrir mót hafa hjálpað okkur gríðarlega mikið. Þetta eru miklir atvinnumenn sem hugsa rosalega vel um sig og gefa af sér."