mán 19.sep 2022
[email protected]
Kolbeinn byrjaður að spila - Kristall tæpur
 |
Kristall Máni Ingason |
Kolbeinn Þórðarson og Kristall Máni Ingason voru valdir í u21 árs landsliðið fyrir komandi verkefni gegn Tékklandi en þeir hafa báðir verið að kljást við meiðsli.
Kolbeinn spilaði sinn fyrsta leik í þrjá mánuði í gær en hann spilaði 20 mínútur í 1-0 tapi Lommel gegn u23 liði Standard Liege í næst efstu deild í Belgíu. Kristall hefur ekki verið með Rosenborg í síðustu þremur leikjum eftir að hafa axlarbrotnað. Davíð Snorri Jónasson þjálfari u21 árs landsliðsins var spurður út í stöðuna á þeim. „Kolli er búinn að æfa vel og staðan á honum á bara að vera fín. Þeir (Lommel) eru búnir að vera trappa hann aðeins upp. Tímalínan hjá Kristalli er aðeins óskýr, það kemur betur í ljós í næstu viku. Hver dagur skiptir máli núna. Hann kemur til liðs við okkur og við skoðum hann betur, sjáum hver staðan verður."
Er Kristall tæpur fyrir fyrri leikinn?
„Já, á þessum tímapunkti já. Við skulum samt sjá hvað læknarnir segja, þeir vita meira um þetta en ég." Fyrri leikurinn fer fram á Víkingsvelli á föstudaginn og síðari leikurinn í Tékklandi á þriðjudaginn. Sigurvegarinn tryggir sér sæti á EM næsta sumar.
|