mán 19.sep 2022
Sjáðu markið glæsilega sem færði Einherja sigur í 4. deildinni
Einherjamenn með bikarinn.
Einherji frá Vopnafirði fór með sigur af hólmi í 4. deildinni í ár, en þeir lögðu Árbæ að velli í úrslitaleik um liðna helgi.

Liðin spiluðu úrslitaleikinn á Sauðárkróki og komust Vopnfirðingar yfir í fyrri hálfleik. Maxim Iurcu skoraði markið og var staðan 0-1 í leikhlé.

Í síðari hálfleik fékk Serghei Diulgher beint rautt spjald í liði Einherja og því þurftu tíu Einherjar að klára úrslitaleikinn.

Baráttuglaðir Vopnfirðingar létu spjaldið ekki slá sig útaf laginu en misstu þó forystuna þegar Eyþór Ólafsson jafnaði á lokakaflanum.

Leikurinn stefndi í framlengingu en það var mikil dramatík á lokamínútunum þar sem tíu Einherjum tókst að gera sigurmark. Carlos Javier Castellano gerði markið og fagnaði svo dátt að dómarinn sýndi honum gult spjald. Markið var svo sannarlega stórglæsilegt.

Hægt er að sjá markið hér fyrir neðan, en bæði Árbær og Einherji leika í 3. deild að ári.