mán 19.sep 2022
Rooney tók leikmann af velli sem var sagður hafa notað „n-orðið"
Wayne Rooney.
Guðlaugur Victor Pálsson leikur með Fountas hjá DC United.
Mynd: Getty Images

Goðsögnin Wayne Rooney skipti í gær leikmanni sínum af velli vegna ásakana um að hann hefði verið með kynþáttafordóma í garð andstæðings.

Rooney er í dag þjálfari DC United í Bandaríkjunum en liðið tapaði í gær gegn Inter Miami í MLS-deildinni.

En úrslitin féllu í skugga atviks sem varð á meðan leik stóð.

Á 59. mínútu lentu tveimur leikmönnum saman - Taxiarchis Fountas hjá DC United og Damion Lowe hjá Miami. Í kjölfarið var leikurinn stoppaður þar sem dómarinn rædd við þjálfara beggja liða sem og fyrirliða.

Leikurinn hélt svo áfram en Rooney skipti Fountas af velli. Eftir leikinn sagði varnarmaðurinn DeAndre Yedlin svo frá því að Fountas hefði notað „n-orðið" og því hefðu leikmenn Miami neitað að spila þangað til eitthvað yrði gert við Fountas.

Eftir leik staðfesti Rooney að hann hefði fengið kvörtun í tengslum við leikmanninn, kvörtun sem yrði rannsökuð.

Fountas neitar sök en MLS-deildin hefur nú þegar hafið rannsókn á málinu. DC United segist ætla að vinna náið með MLS við rannsókn málsins.

Phil Neville er þjálfari Inter Miami en hann hrósaði sínum fyrrum liðsfélaga hjá Manchester United - Rooney - fyrir viðbrögð sín. „Ég verð að gefa Wayne Rooney mikla virðingu fyrir það hvernig hann höndlaði þetta mál. Hann hækkaði mjög í áliti hjá mér," sagði Neville.

Þess má geta að Guðlaugur Victor Pálsson er leikmaður DC United og var hann með í leiknum í gær.