mán 19.sep 2022
Hlín lék í sigri Pitea - Sönderjyske glutraði niður tveggja marka forystu

Hlín Eiríksdóttir var í byrjunarliði Pitea sem heimsótti Umea í efstu deildinni í Svíþjóð í dag.Pitea vann leikinn 1-0 en eina markið kom þegar fimm mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. Þjálfari Pitea skipti Hlín af velli þegar tæpar tíu mínútur voru eftir.

Pitea er án taps í fimm síðustu leikjunum í deildinni og situr í 6. sæti með 33 stig eftir 20 umferðir.

Í næst efstu deildinni í Danmörku mættust Sönderjyske og Vendsyssel en Atli Barkarson sat allan tíman á bekknum hjá Sönderjyske. Sönderjyske var með 2-0 forystu í hálfleik en missti hana niður í þeim síðari og lokatölur urðu 2-2. 

Atli meiddist í júlí en hefur verið í hóp hjá Sönderjyske í síðustu þremur leikjum en ekki fengið tækifæri til að spila.

Sönderjyske er í hörku toppbaráttu en liðið er í 3. sæti með 20 stig eftir 10 umferðir, fjórum stigum frá toppliði Vejle.