þri 20.sep 2022
„Það kæmi mér á óvart ef Albert spilar aftur fyrir Arnar"
Albert á landsliðsæfingu.
Albert er ekki í hópnum að þessu sinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Albert Guðmundsson, leikmaður Genoa á Ítalíu, er ekki í landsliðshópnum sem tekur þátt í komandi leikjum gegn Albaníu og Venesúela.

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, sagði á fréttamannafundi að hann væri ósáttur við það hugarfar sem Albert sýndi í síðasta glugga.

„Ég var mjög svekktur út í hugarfar Alberts í síðasta glugga. Það er mikill heiður að vera valinn í landsliðið og menn þurfa að vera 100% með eða ekki. Leikmenn Íslands hafa alltaf sett frammistöðu liðsins fram yfir eigin frammistöðu og ég tel að það sé lykillinn að árangri. Þetta er ákvörðun sem ég tek fyrir þennan glugga en ég loka ekki neinu í framtíðinni. Þegar Albert er tilbúinn að vinna innan þess ramma sem ég set þá er pláss fyrir hæfileikaríka menn eins og hann," sagði Arnar.

Rætt var um fjarveru Alberts í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðasta laugardag.

„Þetta er einhver rosalegasta ræða sem ég hef heyrt um einn leikmann á blaðamannafundi," sagði Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættinum.

„Ég held ég hef aldrei heyrt svona - allavega ekki á mínum blaðamannaferli - að einn leikmaður sé tekinn svona fyrir... hann vissi að þessi spurning myndi koma og tók sérstaka beygju til að láta hann heyra það. Það segir okkur það að hann hafi verið mjög reiður með frammistöðu hans utan vallar í síðasta glugga."

Albert fékk lítið hlutverk í síðasta glugga og var hann ekki sáttur með það. „Albert er orðinn 25 ára gamall. Hann er gríðarlega hæfileikaríkur en við hefðum viljað sjá meira frá honum í landsliðsbúningnum. Það voru væntingar til þess að hann yrði í stærra hlutverki og myndi gera meira," sagði Elvar Geir Magnússon.

„Hann varð mjög góður, mjög snemma. Hann átti að vera helsti kyndilberi næstu kynslóðar miðað við hæfileikana, en hæfileikar eru eitt og - miðað við það sem Arnar segir - eru vilji og dugnaður eitthvað annað. Það gerir honum engan greiða þegar talað er um hann sem hæfileikaríkasta leikmanninn í liðinu. Það eru tveir krakkar í hópnum (Hákon og Ísak) sem eru að spila á hærra stigi en hann, í Meistaradeildinni," sagði Tómas.

„Hann er frábær leikmaður á sínum degi og það eru ekki margir mikið betri með boltann í fótunum, en íslenska landsliðið snýst voðalega lítið um það."

„Hæfileikaríkasti leikmaðurinn í hópnum núna er náttúrulega Alfreð Finnbogason. Við þurfum ekki að rífast lengi um það," sagði Tómas. „Hann er langbesti fótboltamaðurinn í íslenska landsliðshópnum sem var valinn í gær (á föstudag). Þetta er ekki skoðun, þetta er staðreynd. Svo getum við raðað hinum fyrir aftan, en það er ekki það sem Arnar er að tala um."

„Það er alls ekki það sem hann er að tala um. Það kæmi mér á óvart ef Albert spilar aftur fyrir Arnar... ég get ekki ímyndað mér að Albert sé ánægður með þetta - líka af því að hann segir þetta svo opinberlega."

Hægt er að hlusta á alla umræðuna hér fyrir neðan en það verður áhugavert að sjá hvort Albert eigi afturkvæmt í landsliðshópinn undir stjórn Arnars. Landsliðsþjálfarinn sagðist ekki vera búinn að loka glugganum.