fim 22.sep 2022
Grilluð staða að vera í - „Hægt að setja spurningu við sanngirnið"
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Ási og Steini.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Davíð Snorri Jónasson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Eftir leikinn við Holland.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag er hann tilkynnti landsliðshóp sinn fyrir leikinn mikilvæga í umspilinu fyrir HM.

Leikurinn fer fram þann 11. október næstkomandi og kemur til með að ráða því hvort Ísland fer á HM í fyrsta sinn eða ekki. Andstæðingurinn verður Belgía eða Portúgal.

Undibúningurinn er flókinn þar sem íslenska liðið fær ekki að vita um andstæðing fyrr en að kvöldi til 6. október þegar Belgía og Portúgal eigast við.

„Kosturinn er sá að við höfum ágætis undirbúning ef við spilum á móti Belgíu, en Portúgal er lið sem við höfum ekki spilað við. Auðvitað er það skrýtið að uppgötva það á fimmtudagskvöldi fyrir leik við hvern þú ert að fara að spila," sagði Steini.

„Við verðum að undirbúa okkur fyrir báða andstæðinga, gera þá grunnvinnu sem þarf að gera fram að leik - vera sem best undirbúin að takast á við hvorn andstæðinginn sem við fáum."

Steini tekur undir það að þetta umspil sé grillað, að fá að vita um andstæðing svona stuttu fyrir leik. Kerfið er vægast sagt flókið og gæti íslenska liðið endað í Nýja-Sjálandi. Það var þá dregið um heimaleik, en það verður að teljast verulega ósanngjarnt. Þetta verður bara einn leikur, úrslitaleikur, um það hvort Ísland komist á HM eða ekki.

„Þetta kerfi er grillað, það er alveg ljóst. Við getum rætt það fram og til baka hversu sanngjarnt þetta er, að vera að draga um heimavöll og svoleiðis. Ég held að þetta hafi aldrei í sögunni bara verið einn leikur í umspili, yfirleitt eru þetta tveir leikir. Stundum er það bara nóg að vera með besta árangurinn í öðru sæti til að komast beint á mótið. Þetta er sérstakt og það er hægt að setja spurningu við sanngirnið."

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21 landsliðs karla, mun hjálpa til við undirbúninginn.

„Davíð Snorri fer á leikinn hjá Belgíu og Portúgal. Hann kemur svo yfir til okkar og við förum yfir þetta. Hann tekur fund með hópnum, tekur það einhverjum fjórum dögum fyrir leik. Það var best í stöðunni að þetta yrði gert svona."

„Ég veit ekki hvoru liðinu við viljum mæta. Við þekkjum Belgana, en við þekkjum Portúgala minna. Portúgalar eru lægra skrifaðar, en þær eru með heimavallarréttinn. Ég veit það ekki, við þurfum bara að vinna það lið sem við mætum. Við þurfum að fara með það hugarfar að okkur sé alveg sama hverjum við mætum. Þetta var pólitískt svar," sagði Steini þegar hann var spurður hvoru liðinu hann vildi frekar mæta.

Tapið grátlega á móti Hollandi
Íslenska liðið hefði farið beint á HM með jafntefli gegn Hollandi fyrr í þessum mánuði, en Hollendingar skoruðu þar sigurmark í uppbótartíma. Steini segir að það hafi verið ýmislegt sem hafði ekki gengið upp í þeim lek.

„Nei, ég held að þú gerir þér alveg grein fyrir því að það var ýmislegt sem gekk ekki upp, í fyrri hálfleik sérstaklega," sagði Steini en Hollendingar áttu mjög góðan leik og sýndu styrk sinn. Að sama skapi átti íslenska liðið ekki sinn besta dag í Utrecht.

„Við breyttum í hálfleik og lokuðum ákveðnum hlutum. Við vorum miklu minna um boltann og allt það. Við getum deilt um það hversu fallegur fótbolti þetta er og allt svoleiðis. Ef leikurinn hefði verið flautaður af á 92. mínútu þá værum við hetjur og snillingar að ná að loka leiknum eftir erfiðan fyrri hálfleik."

„Við lögðum leikinn ekki svona upp, ég er heiðarlegur með það. Við ætluðum ekki að liggja svona til baka og vera svona lítið með boltann. Við ætluðum að finna ákveðnar leiðir, en það gekk ekki. Þá fer maður stundum í skotgrafirnar og þarf að vinna sig út úr því. Við gerðum það vel í seinni hálfleik. Við áttum besta færið í seinni hálfleik. Það er stutt á milli í þessu," sagði þjálfarinn jafnframt en núna er það bara umspilið þar sem allt er undir - þar sem Ísland getur tryggt sig inn á HM í fyrsta sinn.

Sjá einnig:
Högg í hjartastað á 92:18 en við áttum það bara skilið