lau 24.sep 2022
Fyrsta tap Þjóðverja undir Flick - „Ég bjóst ekki við þessu"
Hansi Flick
Þýska landsliðið tapaði fyrsta landsleik sínum undir stjórn Hansi Flick í gær er liðið beið lægri hlut fyrir Ungverjalandi í Þjóðadeildinni.

Adam Szalai skoraði stórbrotið sigurmark fyrir Ungverja með hælspyrnu eftir hornspyrnu Dominik Szoboszlai á 17. mínútu, en Ungverjar hafa spilaði feykivel í A-deildinni og eru í bílstjórasætinu um að fara í úrslitakeppnina.

Þýskaland hefur spilað frábærlega undir stjórn Hansi Flick síðan hann tók við í ágúst á síðasta ári. Fyrir þennan leik hafði liðið unnið níu leiki og gert eitt jafntefli, en hann upplifði fyrsta tapið í gær.

Flick segir fyrri hálfleikinn þann versta síðan hann tók við liðinu.

„Fyrri hálfleikurinn var versti hálfleikur síðan ég kom. Það var lítið traust, lítil ákefð, fá færi og mörg mistök. Ég bjóst ekki við því og það þurfa allir að líta í spegil. Tíminn fyrir tilraunir er liðinn," sagði Flick.