lau 24.sep 2022
Lineker skilur ekkert í Southgate - „Trent fær flísar í rassinn"
Gary Lineker
Gary Lineker, fyrrum leikmaður enska landsliðsins og núverandi þáttastjórnandi á BBC, segist ekki skilja neitt í liðsvali Gareth Southgate.

England tapaði fyrir Ítalíu, 1-0, í A-deild Þjóðadeildarinnar í gær en úrslitin þýða að England spila í B-deildinni í næstu keppni.

Liðið hefur ekki skorað mark í opnu spili í sjö klukkutíma og hefur þá aðeins gert eitt mark í allri keppninni, en Harry Kane gerði það úr vítaspyrnu gegn Þjóðverjum.

Lineker hefur miklar áhyggjur af stöðunni og þá sérstaklega þegar stutt er í HM í Katar. Hann veltir því fyrir sér af hverju James Maddison, leikmaður Leicester City, sé ekki í hópnum eftir að hafa staðið sig vel með liðinu og setur þá spurningarmerki við það að Trent Alexander-Arnold, leikmaður Liverpool, fái ekki sénsinn og þá sérstaklega þar sem enska liðið er ekki að ná að skora mörk.

„Vinsamleg ábending um það að James Maddison, einn mest skapandi miðjumaður Englands, var ekki í 28-manna hópnum og Trent Alexander-Arnold, mest skapandi leikmaður Englands, er á bekknum og fær flísar í rassinn," sagði Lineker á Twitter.