lau 24.sep 2022
Spænsku landsliðskonurnar ósáttar með knattspyrnusambandið
Mynd: EPA

Mynd: Getty Images

Það ríkir mikil dramatík innan spænska kvennalandsliðsins þessa dagana þar sem fimmtán leikmenn liðsins vilja ekki spila fyrir þjálfarann Jorge Vilda. Leikmennirnir fimmtán eru ósáttar með stemninguna í klefanum, þjálfunaraðferðir Vilda, liðsvalið hans og meðhöndlun hans á meiðslum.Vilda hefur verið við stjórn hjá spænska landsliðinu síðan 2015 en þar áður starfaði hann fyrir unglingalandsliðin og hefur í heildina verið þjálfari hjá landsliðinu í meira en tólf ár. Vilda er aðeins 41 árs gamall og spilaði bæði fyrir unglingalið Barcelona og Real Madrid en þurfti að hætta snemma vegna meiðsla.

Leikmennirnir fimmtán sendu tölvupósta á spænska knattspyrnusambandið til að vekja athygli á vandamálinu innan kvennalandsliðsins. Spænskir fjölmiðlar fengu veður af því og birtu fréttir af málinu en daginn eftir gaf knattspyrnusambandið út harðorða yfirlýsingu gegn þessum fimmtán leikmönnum. Þar var meðal annars tekið fram að þessir leikmenn yrðu ekki valdar aftur í landsliðið nema þær myndu biðjast innilegrar fyrirgefningar.

Leikmennirnir hafa ekki gefið fjölmiðlum svör vegna málsins en á Spáni er sagt að þær hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með viðbrögð knattspyrnusambandsins. Í yfirlýsingu segjast þær aldrei hafa hótað því að hætta að spila fyrir landsliðið og að þær hafi búist við að þetta yrði aðeins innanhússmál. Þeim finnst yfirlýsing knattspyrnusambandsins verulega ófagmannleg.

Ona Batlle og Leila Ouahabi, leikmenn Manchester United og City, birtu yfirlýsinguna á samfélagsmiðlum og þar kemur ýmislegt fram. Meðal annars vonbrigði leikmanna með yfirlýsingu knattspyrnusambandsins, þar sem þær átti sig fullkomlega á því að starfslýsing landsliðskvenna felist ekki í að velja þjálfara.

„Við sögðum okkur aldrei úr spænska landsliðinu þrátt fyrir yfirlýsingu þess," segir meðal annars í yfirlýsingu leikmanna. „Við biðjum um að vera ekki kallaðar í landsliðshópinn vegna þess að ástandið þar er að hafa slæm áhrif á okkar persónulega líf."

Landsliðskonurnar kalla auk þess eftir bættri umgjörð í kringum landsliðið og verður áhugavert að sjá hvernig mál þróast.

Sjá einnig:
Fimmtán leikmenn spænska landsliðsins neita að spila fyrir þjálfarann
Spænska sambandið: Ekki á valdsviði leikmanna að reka þjálfarann