lau 24.sep 2022
Busquets ekki viss hvort hann verði áfram eftir tímabilið

Sergio Busquets á tæpt ár eftir af samningi sínum  við Barcelona og mun líklega yfirgefa félagið næsta sumar.Busquets er 34 ára gamall og hefur verið mikilvægur hlekkur í liði Barcelona í rúman áratug. Hann á rétt tæpa 700 leiki að baki fyrir félagið og hefur aldrei spilað fyrir neitt annað félag.

Þessi öflugi varnartengiliður er byrjunarliðsmaður hjá Barca enn í dag en getur þó ekki spilað alla leiki sökum aldurs. Það eru mörg félög sem hafa áhuga á að fá Busquets í sínar raðir og eru bestu tilboðin öll úr norður-amerísku MLS deildinni.

„Ég er ekki búinn að taka ákvörðun, það er ekki víst að ég fari frá Barcelona í júní. Það fer eftir því hvernig þetta tímabil verður fyrir mig. Ef mér líður enn eins og ég geti spilað í hæsta gæðaflokki þá verð ég áfram," sagði Busquets sem er fyrirliði spænska landsliðsins og í leikmannahópinum fyrir leik gegn Sviss í kvöld.