lau 24.sep 2022
Bellingham yngri búinn að skrifa undir atvinnumannasamning

Jobe Bellingham, yngri bróðir ungstirnisins Jude Bellingham, er búinn að skrifa undir atvinnumannasamning við Birmingham.Bellingham bræðurnir eru uppaldir í Birmingham og er sá eldri mikils metinn. Hann er stjarnan á miðju Borussia Dortmund og vill þýska félagið fá yfir 100 milljónir evra til að selja hann, enda gríðarlega eftirsóttur.

Bellingham yngri átti 17 ára afmæli í gær og fékk atvinnumannasamninginn í afmælisgjöf eins og margir aðrir.

Jobe hefur komið við sögu í nokkrum leikjum á upphafi tímabils og var í byrjunarliðinu í 2-2 jafntefli gegn Norwich í deildabikarnum sem tapaðist í vítaspyrnukeppni.

Jobe er með U18 landsliði Englands í landsleikjahlénu þar sem leikir eru framundan við Holland, Færeyjar og Belgíu í Pinatar bikarnum á Spáni.