lau 24.sep 2022
„Vil þyrluflug fyrir þessa stráka" yfir í U21 landsliðið ef Ísrael vinnur í kvöld
Hákon Arnar og Ísak Bergmann eru báðir löglegir með U21 landsliðinu.
Elvar Geir og Tómas Þór eru sammála um að ef Ísland á ekki möguleika á því að komast upp í A-deild Þjóðadeildarinnar eftir kvöldið ætti að styrkja U21 landsliðshópinn með leikmönnum úr A-landsliðinu. Þetta var rætt c í dag.

Ef Ísrael vinnur Albaníu í kvöld eru möguleikar Íslands á að komast upp um deild í Þjóðadeildinni á enda. U21 landsliðið mætir Tékklandi á þriðjudaginn í seinni viðureign liðanna í umspili um sæti á EM en liðið tapaði 1-2 í fyrri leiknum.

Hákon Arnar Haraldsson, Ísak Bergmann Jóhannesson, Andri Lucas Guðjohnsen, Þórir Jóhann Helgason og Mikael Egill Ellertsson eru allir löglegir með U21 landsliðinu en eru í A-hópnum. Mögulegt er að setja þá inn í U21 hópinn fyrir seinni leikinn.

„Ef Ísrael vinnur í kvöld vil ég þyrluflug fyrir Hákon og Ísak Bergmann til Tékklands. Líka Andra Lucas. Húrra þessum strákum yfir," segir Tómas.

Hann og Elvar eru á þeirri skoðun að Davíð Snorri Jónasson U21 landsliðsþjálfari ætti að fá að velja þá leikmenn sem hann vill fá úr A-landsliðinu ef Ísrael vinnur. Þeir telja að það sé það mikilvægt fyrir íslenskan fótbolta að fá U21 á stormót.

„Mér finnst að þetta ætti að vera ákveðið milli landsliðsþjálfarana Arnars og Davíðs núna. Ef þetta endar sem æfingaleikur gegn Albaníu," segir Elvar.

Kristall Máni Ingason getur ekki tekið þátt í verkefninu og þá verður Sævar Atli Magnússon, sem valinn var næstbestur í íslenska liðinu í gær. ekki með. „Sævar Atli fékk gult og verður í banni í þessum seinni leik. Okkar sprækasti sóknarmaður í leiknum í gær," segir Elvar í þættinum.