fim 29.sep 2022
Eiður Smári: Förum svo í fimm úrslitaleiki eftir þennan úrslitaleik
Á laugardaginn verður úrslitaleikur Mjólkurbikarsins á dagskrá þegar ríkjandi meistarar Víkings mæta FH. Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari FH, segir að frábær andi sé í sínu liði fyrir leikinn.

„Þetta leggst bara frábærlega í mig. Það er mikil tilhlökkun í okkur, mikil eftirvænting. Þetta hefur verið erfitt sumar fyrir okkur og frábært að geta boðið upp á þessa upplifun," segir Eiður Smári.

Aðdragandinn að þessum leik hefur verið nokkuð langur enda kemur hann strax eftir landsleikjaglugga. Eiður segir að það hafi hjálpað leikmönnum sem voru að glíma við einhver meiðsi.

„Það hefur verið fínt. Það eykur kannski aðeins eftirvæntinguna og biðina eftir leiknum. Það er gott fyrir nokkra leikmenn sem voru að glíma við smávægileg meiðsli eftir síðasta deildarleik að hafa fengið þennan tíma. Það er útlit fyrir að allir í hópnum verði klárir."

Eiður þekkir úrslitaleiki vel frá leikmannaferlinum en þetta er hans fyrsti úrslitaleikur sem þjálfari.

„Þetta er ný upplifun, ég hef farið í nokkra úrslitaleiki sem leikmaður en aldrei sem þjálfari. Þegar maður er í þessum bransa vill maður skilja eitthvað eftir fyrir félagið sem maður vinnur fyrir," segir Eiður.

Fimm umferðir eru eftir af Bestu deildinni og FH er í fallsæti. Sigur í bikarúrslitunum á laugardag gefur liðinu Evrópusæti og gott veganesti í fimm síðustu umferðir Íslandsmótsins.

„Það yrði risastórt fyrir okkur. Við erum ekki bara að fara í þennan úrslitaleik, við erum svo í kjölfarið að fara í fimm úrslitaleiki. Það væri gott að vera búnir að tryggja eitthvað eftirminnilegt fyrir þá leiki," segir Eiður.