fim 29.sep 2022
Conte ánægður hjá Spurs og segir Juve orðróminn óvirðingu
Antonio Conte, stjóri Tottenham.
Antonio Conte, stjóri Tottenham, segir að þær slúðurfréttir sem orða hann við endurkomu við Juventus vera óvirðingu. Hann segist ánægður hjá Tottenham.

Fjölmiðlar á Ítalíu töluðu um það í síðustu viku að Conte væri opinn fyrir því að snúa aftur til Juve og taka við af Massimiliano Allegri en sæti hans er talið funheitt. Juve hefur aðeins unnið tvo sigra í sjö leikjum á þessu tímabili.

Conte er samningsbundinn Tottenham út yfirstandandi tímabil.

„Þetta er ótrúlegt. Á þessum tímapunkti tel ég að þetta sé óvirðing, bæði fyrir þjálfara Juventus og mig sem er að starfa fyrir Tottenham," segir Conte.

„Tímabilið er bara nýfarið af stað. Ég hef margoft rætt um þetta og alltaf sagt að ég sé ánægður hjá Tottenham og njóti tímans hérna. Það er allt tímabilið framundan til að finna bestu lausnina fyrir félagið og mig. En eitt er ljóst, ég nýt þess að vera stjóri Tottenham."