fim 29.sep 2022
Þjálfari ársins sækir innblástur til Elísabetar
Elísabet Gunnarsdóttir.
Henrik Rydström, þjálfari Kalmar í úrvalsdeild karla í Svíþjóð, nefnir Elísabetu Gunnarsdóttur sem einn sinn helsta innblástur í þjálfun.

Rydström var í KFF hlaðvarpinu á dögunum þegar hann var spurður að því hvaða þjálfarar hafa veitt honum innblástur. Hann nefndi ekki neinn samkeppnisaðila sinn úr úrvalsdeild karla - heldur nefndi hann Elísabetu.

Elísabet hefur stýrt Kristianstad í úrvalsdeild kvenna í Svíþjóð frá árinu 2009.

Hún hefur gengið í gegnum mikið með félaginu en síðustu tvö árin hefur hún náð að koma þessu litla félagi í Meistaradeild Evrópu. Í ár er Kristianstad jafnframt í bullandi titilbaráttu gegn ríkjandi meisturum Rosengård.

Rydström, sem er 46 ára, lék lengi vel með Kalmar og þjálfaði unglingalið félagsins ásamt því að vera aðstoðarþjálfari frá 2014 til 2019. Fyrir tveimur árum tók hann svo við karlaliði félagsins sem aðalþjálfari.

Rydström, sem var valinn þjálfari ársins í úrvalsdeild karla árið 2021, segir Elísabetu veita sér innblástur og væri hann til í að læra meira af henni. Hvorugt þeirra er að þjálfa hjá stærsta félagi Svíþjóðar en þau hafa bæði náð mjög góðum árangri í þeim verkefnum sem þau hafa tekið að sér.