fös 30.sep 2022
Leiðir Víkinga út á morgun - „Þeirra rödd er alls ekki farin"
Júlíus Magnússon, fyrirliði Víkinga.
Bikarmeistarar í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Júlíus, Kári Árnason og Halldór Smári Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Sölvi Geir Ottesen, aðstoðarþjálfari Víkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Í leik í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Í leik gegn FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Kristall Máni fór út í atvinnumennsku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Fyrirliðinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Vonast til að sjá sem flesta í stúkunni á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Víkingar eru vel stemmdir fyrir bikarúrslitaleikinn gegn FH á Laugardalsvelli á morgun. Um er að ræða þriðja bikarúrslitaleik Víkinga í röð en þeir hafa unnið hina tvo.

Undirritaður spjallaði við Júlíus Magnússon, fyrirliða Víkinga, í dágóðan tíma í gær um leikinn stóra sem er framundan.

„Þetta leggst mjög vel í okkur. Ég held við séum allir vel peppaðir eftir smá frí í landsleikjahléinu. Það var gott að fá góðar tvær vikur í æfingar og að geta undirbúið sig vel fyrir leikinn. Ég held að það séu allir vel stemmdir og tilbúnir í þetta," segir Júlli.

Eruð leikmenn Víkinga búnir að nýta landsleikjahléið vel í undirbúninginn fyrir þennan leik?

„Já, ég held að það megi segja það. Við erum allir búnir að núllstilla okkur frá álaginu sem var áður og höfum byggt okkur upp í leikinn sem er framundan."

Ætla sér að taka þann þriðja í röð
Víkingar hafa orðið að miklu bikarliði. Líkt og fyrr segir þá eru þeir búnir að vinna þessa keppni tvö ár í röð og stefna núna á að vinna þann þriðja í röð. Júlli segir að innan félagsins sé lagt mikið upp úr því að taka bikarinn alvarlega, þetta sé keppni sem leikmenn og þjálfarar elska.

„Þetta er samspil af gæðum innan vallar og svo líka ákveðin reynsla sem hefur myndast. Það er hefð hjá okkur að taka þessum bikarleikjum mjög alvarlega," segir Júlli. „Það er ekki sjálfgefið að komast í svona úrslitaleiki. Það vilja allir vera í svona leik, en við erum með gæði inn á vellinum og reynslu og hefð sem hefur skapast hjá leikmannahópnum."

Miðjumaðurinn öflugi var maður leiksins þegar Víkingur unnu sigur á FH í úrslitaleiknum árið 2019. Man hann vel eftir þeim leik?

„Sá leikur lifir vel í minningunni. Það var fyrsti alvöru úrslitaleikurinn á ferlinum hjá mér persónulega. Það er ansi góð minning af þeim leik og mjög góð reynsla sem kom úr þeim leik upp á framhaldið. Maður hefur lært af því hvernig á að takast á við svona leiki og hvernig á að gera sig tilbúinn."

Segja má að dæmið hafi snúist við frá þeim leik; núna eru Víkingar í efri hluta Bestu deildarinnar á meðan FH er í neðri hlutanum.

„Þetta er mjög góður punktur. Við vorum ekki á sérstökum stað þá, við vorum nálægt fallsvæðinu á meðan FH var í góðri stöðu. Það sýnir sig samt að í svona bikarúrslitaleikjum er hvorugt liðið sigurstranglegri að mínu mati. Bæði lið eru 50/50 líkleg. Í úrslitaleik skiptir það engu máli hvar liðin eru í deildinni."

Bikarkeppnin hefur veitt mikla gleði
Víkingar hafa fagnað mikill velgengi síðustu árin. Sigurinn á FH 2019 var upphafið á því, sigurinn sem setti tóninn að því sem kom svo þegar liðið vann tvöfalt í fyrra.

„Það hefur engin rútína myndast á síðustu árum sem hefur fest sig í sessi hjá okkur. Ekkert sem ég man eftir. Það hefur ekki verið neitt frábrugðið leikjum í deildinni eða þannig. Við reynum bara að undirbúa okkur eins vel og hægt er. Við reynum að gíra okkur upp í það spennustig sem fylgir þessum leik. Auðvitað er þetta aðeins öðruvísi en venjulegur leikur í deildinni. Maður gerir sér grein fyrir því um leið og leikurinn er að fara að byrja hvernig andrúmsloftið er og spennustigið. En að sama skapi er þetta bara eins og hver annar undirbúningur, eða þannig hefur það verið," segir fyrirliðinn um það aðspurður hvort Víkingar séu með einhverja rútínu fyrir þessa bikarúrslitaleiki.

Eru leikmenn Víkinga búnir að venjast því að fara í bikarúrslitin?

„Það er kannski stórt að segjast vera búinn að venjast því en að sama skapi höfum við verið í þessari stöðu síðustu ár. Leikmenn sem hafa verið í þessari stöðu síðustu ár eru orðnir vanari því en hinir. Ég ætla ekki að segja að það sé venja sem skapist, en það er kannski frekar hægt að tala um hefð hjá okkur," segir Júlli.

„Þessi bikarkeppni hefur gefið okkur mikla gleði og það hefur skapast hefð innan hópsins að vilja upplifa hversu gaman þetta er. Þetta eru leikir sem allir vilja spila og það er klárlega það sem við viljum smita til hinna leikmannana sem hafa ekki spilað þennan leik eða hafa ekki spilað hann í langan tíma."

Kosinn besti miðjumaður deildarinnar
Júlíus var á dögunum kosinn besti miðjumaður Bestu deildarinnar þetta tímabilið af lesendum Fótbolta.net Hann segist heilt yfir ánægður með tímabilið hjá sér og liðinu.

„Já, ég get sagt að ég sé sáttur miðað við allt sem hefur gengið á. Að sama skapi hefur verið svekkelsi hér og þar. Maður hefur verið nálægt sumum sigrum og við vorum nálægt því að fara lengra í Evrópukeppninni. Ef við horfum til baka á það sem þessir 22 leikir í deildinni og leikir í Evrópukeppni hafa gefið okkur, þá hefur það þjappað hópnum vel saman og gefið okkur mikla reynslu inn í stóra leiki. Ég er heilt yfir mjög sáttur með tímabilið út frá leikjaálagi og allt svoleiðis," segir hann.

„Ég var reyndar ekki búinn að sjá það, en það er gaman að heyra það því það gefur manni mikla innspýtingu," segir Júlli þegar honum er tjáð að hann hafi verið kosinn besti miðjumaður deildarinnar. „Það er líka mikill heiður því það er fullt af góðum miðjumönnum í þessari deild. Þeir gera kannski ákveðna hluti sem margir fíla meira en það sem ég er að gera. Að sama skapi er gaman að fá hrós að fá það sem maður gerir inn á vellinum."

Dagur Dan Þórhallsson endaði í öðru sæti í kosningunni en hægt er að sjá niðurstöður hennar hérna.

„Fólk hefur skiljanlega áhuga á Degi Dan, á svoleiðis leikmanni. Leikmaður eins og hann gerir meira fram á við og þannig, en það er gaman að heyra af þessu."

„Ég held ég geti verið ánægður með tímabilið hjá mér persónulega. Það er kannski erfitt að segja það núna þegar sex leikir eru eftir, en í leikjunum sem hafa verið spilaðir nú þegar þá er ég mjög sáttur með mína frammistöðu. Það er samt alltaf svigrúm til þess að bæta sig enn meira. Ég held það."

Fengið enn meiri ábyrgð
Fyrir tímabilið var það gefið út að Júlíus, sem er 24 ára gamall, myndi taka við fyrirliðabandinu hjá Víkingum. Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen, fyrrum landsliðsmenn, hættu báðir eftir síðustu leiktíð og fékk miðjumaðurinn bandið.

„Það er búið að vera mjög skemmtilegt að fá meiri ábyrgð í liðinu. Kári og Sölvi skilja eftir sig ákveðið pláss og þá fá aðrir tækifæri til að stíga upp og hafa ákveðna rödd. Ég ætla ekki að segja að þeir hafi verið eina röddin í liðinu, við vorum margir sem lögðum okkar fram þegar þeir voru að spila. Að sama skapi voru þeir með ákveðna reynslu yfir okkar hina í ákveðnum leikjum og ákveðnum aðstæðum. Þá kunna þeir að höndla svoleiðis aðstæður og svoleiðis leiki betur en við hinir. Þeir hafa lent í ýmsu og áttu langan og góðan feril," segir hann.

„Það er heiður að fá stöðu sem þeir hafa báðir skilið eftir sig. Þeir voru báðir fyrirliðar þó Sölvi hafi kannski heilt yfir verið meira í því. Það er heiður sem kemur fyrst upp í hugann, að fá að vera fyrirliði þessa liðs."

Bæði Kári og Sölvi eru enn í kringum félagið - Sölvi er aðstoðarþjálfari og Kári yfirmaður fótboltamála - og segir Júlíus það vera mikilvægt fyrir hópinn.

„Þeirra rödd er alls ekki farin. Það er kannski meira svona í ákveðnum aðstæðum inn á vellinum þar sem var gott að hafa þá. Þeir eru alltaf viðloðandi klefann og Sölvi er aðstoðarþjálfari. Sölvi hefur sitt að segja inn á vellinum, í hálfleik og allt svoleiðis. Kári hefur líka verið mjög góð rödd fyrir okkur. Hann hefur verið með okkur í mörgum leikjum og það er frábært að hafa þá alltaf til staðar. Maður getur alltaf leitað til þeirra og þeir eru með rödd sem þú hlustar mikið á."

Hann á það fyllilega skilið
Fyrr í sumar var Kristall Máni Ingason seldur frá Víkingum til Rosenborg. Hann hafði verið frábær fyrir Víkinga og mjög miklvægur fyrir liðið. Fyrirliðinn segir auðvitað mikill missir af Kristal en hann er mjög ánægður fyrir hans hönd.

„Það er mjög gaman að sjá leikmann sem maður hefur spilað í tvö tímabil með hér heima fá tækifæri úti. Hann á það fyllilega skilið. Hann hefur spilað mjög vel með okkur og U21 landsliðinu. Hann hefur sprungið út á þessu ári. Hann sýndi sínar frábæru hliðar líka á síðustu leiktíð og spilaði flestalla leikina. Það gleður mann að sjá svona en það er líka mikill missir af því að missa svona góðan leikmann á miðju tímabili. Aðrir leikmenn hafa samt stigið upp og sýnt hvað í sér býr."

Hann telur að Kristall geti náð eins langt og hann vill.

„Ég held að hann geti náð eins langt og hann vill. Hann hefur gæðin til þess og hefur sýnt það bæði hjá okkur og U21 landsliðinu. Hann tekur yfir leiki og gerir þá að sínum. Hann er með ákveðið 'element' í sínum leik til að ná langt. Hann hefur klárlega alla möguleika til að ná langt."

Því fleiri því betra
Það hefur verið mikill stuðningur í kringum lið Víkings síðustu ár og vonast fyririliðinn auðvitað til þess að sjá sem flesta í stúkunni á morgun.

„Því fleiri því betra. Maður hefur fundið fyrir stuðningnum frá bikarúrslitunum 2019. Það gerir mikið að hafa marga Víkinga í stúkunni, það er æðislegt. Það gefur meiri tilhlökkun, gefur henni enn meiri styrk einhvern veginn. Það eru forréttindi að fá mikinn stuðning og mikil tilhlökkun fyrir laugardeginum," segir Júlíus.

Leikur FH og Víkinga verður flautaður á klukkan 16:00 á morgun. Víkingarnir hafa tekið bikarinn tvisvar í röð og stefna á að vinna hann þriðja skiptið í röð. FH ætlar að reyna að koma í veg fyrir það.