lau 01.okt 2022
Hugur De Zerbi hjá fólkinu í Úkraínu - „Gátum skorað fleiri mörk"
Roberto de Zerbi
Roberto De Zerbi, stjóri Brighton, var hæstánægður með spilamennsku liðsins í 3-3 jafnteflinu gegn Liverpool á Anfield í dag.

De Zerbi tók við Brighton í síðasta mánuði eftir að Graham Potter hætti með liðið til að taka við Chelsea.

Brighton spilaði frábæran fótbolta á Anfield og tókst Leandro Trossard að skora þrennu fyrir gestina í leiknum.

Stigið var verðskuldað en De Zerbi telur að liðið hefði hæglega getað skorað fleiri mörk.

„Þetta var rosalega erfiður leikur en ég er ánægður fyrir hönd leikmanna og félagsins. Við spiluðum frábæran leik og áttum möguleika á því að skora fleiri en Liverpool er alltaf frábært lið."

„Það var möguleiki að vinna leikinn en ég veit það ekki. Ég get kannski gefið mínum leikmönnum betri leiðbeiningar í framtíðinni."


De Zerbi var áður þjálfari Shakhtar Donetsk í Úkraínu en hann hætti með liðið í sumar vegna innrásar Rússa inn í landið. Hugur hans er hjá fólkinu í Úkraínu.

„Í augnablikinu er ég bara að hugsa um hvað gerðist fyrir nokkrum mánuðum og hvar ég var í febrúar. Ég var viss um að við gátum spilað vel í dag. Ég er stoltur af því að vera stjóri Brighton en hugur minn er enn hjá Shakhtar Donetsk, fyrrum félagi mínu og öllu fólkinu í Úkraínu," sagði De Zerbi.