sun 02.okt 2022
Danmörk: Sævar jafnaði í blálokin - Alfreð lagði upp
Sævar Atli Magnússon skoraði jöfnunarmark Lyngby
Alfreð Finnbogason og Sævar Atli Magnússon hjálpuðu Lyngby að ná í stig er liðið heimsótti Bröndby í dönsku úrvalsdeildinni í dag en Sævar gerði jöfnunarmarkið undir lok leiks.

Alfreð var í byrjunarliði Lyngby og lagði upp fyrsta mark liðsins, en Bröndby tók við sér og skoraði tvö mörk.

Lyngby tókst að jafna metin í 2-2 en aftur komst Bröndy yfir. Sævar Atli kom inná sem varamaður fyrir Alfreð á 82. mínútu og nýtti sér það með því að skora jöfnunarmarkið í blálokin.

Sterkt stig fyrir Lyngby sem er áfram í neðsta sæti með 4 stig. Freyr Alexanderson er þjálfari Lyngby.

Elías Rafn Ólafsson sat allan tímann á bekknum er Midtjylland gerði 1-1 jafntefli við Viborg.

Stefán Teitur Þórðarson og Aron Sigurðarson byrjuðu báðir er Silkeborg lagði Horsens, 2-1. Stefán fór af velli á 73. mínútur í liði Silkeborg en Aron á 88. mínútu hjá gestunum. Silkeborg er í 4. sæti með 17 stig en Horsens í 7. sæti með 17 stig.