sun 02.okt 2022
Besta deildin: KA með annan fótinn í Evrópu
Boltinn fór af Grétari Snæ Gunnarssyni og í netið
KA 1 - 0 KR
1-0 Grétar Snær Gunnarsson ('49 , sjálfsmark)
Lestu um leikinn

KA bar sigurorð af KR, 1-0, í fyrstu umferð í efri hluta Bestu deildar karla í dag er liðin mættust á Greifavellinum á Akureyri. Það var sjálfsmark sem skildi liðin að.

KR-ingar voru meira með boltann í fyrri hálfleiknum en það voru heimamenn sem náðu að skapa sér hættulegri færi.

Liðin náðu ekki að koma boltanum í netið í annars ágætum fyrri hálfleik en það tók aðeins nokkrar mínútur fyrir heimamenn að komast yfir í þeim síðari.

Þorri Mar Þórisson átti sprett inn að vítateig gestanna og kom með sendinguna fyrir en boltinn fór af Grétari Snæ Gunnarssyni og þaðan í netið. Óheppilegt fyrir Grétar.

Þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum vildu heimamenn fá vítaspyrnu. Þeir töldu Þorstein Má Ragnarsson hafa handleikið boltann, en Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, lét leikinn halda áfram.

Lokatölur á Greifavellinum, 1-0, KA í vil. KA er nú í öðru sæti með 46 stig, fimm stigum á eftir toppliði Breiðabliks og þarf aðeins einn sigur til að tryggja Evrópusæti. KR er á meðan í 5. sætinu með 31 stig.