sun 02.okt 2022
Þorri Mar: Það er bónus ef markið er skráð á mig

„Þetta getur ekki verið betra, er gríðarlega stoltur af liðinu sagði Þorri Mar Þórisson leikmaður KA eftir 1-0 sigur liðsins á KR í Bestu deildinni í dag.„Mér fannst við byrja þokkalega en svo föllum við aðeins niður og þeir komast aðeins inn í leikinn en mér fannst aldrei skapast nein hætta. Svo komum við inn í seinni hálfleik með meiri kraft og ákefð og náðum inn marki snemma og það drap leikinn."

Þorri lagði upp markið en það er óljóst hver setti boltann í netið.

„Ég fer upp og þruma honum fyrir og sé boltann enda inni. Geiri segist ekki hafa fengið hann í sig, það fékk hann einhver í sig. Ef þetta er skráð á mig er það bara bónus," sagði Þorri.

KA er komið í annað sæti deildarinnar en Víkingur á leik til góða. KA er sex stigum á eftir Breiðablik og það er ljóst að liðið ætlar að pressa á Kópavogsliðið.

„Okkar markmið er bara að reyna ná sem flestum stigum og vinna sem flesta leiki og það sem gerist í lokin verður bara að koma í ljós, hvort sem það er Evrópa eða ofar, við ætlum bara að reyna vera eins ofarlega og við getum," sagði Þorri.