mán 03.okt 2022
Hver kemur inn í landsliðshópinn fyrir Elínu?
Elín Metta Jensen.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Sóknarmaðurinn Elín Metta Jensen tilkynnti í gær að hún hefði ákveðið að leggja skóna á hilluna.

Elín Metta er aðeins 27 ára gömul en hún segir að það sé kominn tími á að sinna öðrum verkefnum. Hún hefur verið að sinna læknisnámi meðfram fótboltanum og hefur oft reynst erfitt að púsla saman fótboltanum með gríðarlega krefjandi námi.

Elín Metta er einn besti sóknarmaður sem hefur leikið í efstu deild á Íslandi, en hún lék 261 leiki fyrir Val og skoraði 193 mörk. Hún spilaði einnig 62 landsleiki og skoraði 16 mörk.

Elín var valin í landsliðshópinn fyrir umspilið fyrir HM í næsta mánuði, en núna þarf væntanlega að kalla inn nýjan leikmann í hennar stað.

En hverja mun Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, kalla í fyrir þennan mikilvæga leik?

Gera má ráð fyrir því að það verði sóknarmaður og eins og staðan er núna þá eru góðar líkur á því að hann horfi í Bestu deildina. Jasmín Erla Ingadóttir, markadrottning Bestu deildarinnar, hlýtur að gera tilkall sem og liðsfélagi hennar í Stjörnunni, Katrín Ásbjörnsdóttir. Katrín gerði þrennu gegn Keflavík er Stjarnan tryggði sér Meistaradeildarsæti í lokaumferð Bestu deildarinnar.

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir hefur verið að leika vel með Þrótti og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir var besti leikmaðurinn í síðasta þriðjungi deildarinnar.

Ída Marín Hermannsdóttir hefur verið að leika vel í háskólaboltanum í Bandaríkjunum og þá hljóta Karitas Tómasdóttir, Natasha Moraa Anasi, Lára Kristín Pedersen og Berglind Rós Ágústsdóttir að vera inn í myndinni ef Steini horfir í það að bæta miðjumanni við hópinn í staðinn fyrir Elínu.

Gera má ráð fyrir því að það verði tilkynnt síðar í dag eða á morgun hver komi inn í hópinn fyrir Elínu, en Ísland spilar annað hvort við Belgíu eða Portúgal í umspilinu þann 11. október.