mán 03.okt 2022
Segir að Skagamenn þurfi á ævintýri að halda
Brekkan er brött hjá Skagamönnum í baráttunni um að halda sæti sínu í Bestu deildinni. Liðið tapaði gegn Keflavík í gær og er áfram fimm stigum frá öruggu sæti.

Á síðasta ári átti ÍA virkilega öflugan endasprett sem dugði til að halda sætinu í deildinni eftir erfitt tímabil. Núna þarf liðið á svipuðum endaspretti að halda til að eiga möguleika á því.

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, ræddi við Fótbolta.net eftir leikinn í gær. Er hann að spila lokaleiki tímabilsins í fyrra til að sýna fram á að það sé hægt að bjarga sér úr þessari stöðu?

„Það er ekki nokkur spurning að við þurfum á ævintýri að halda. Það eru fjórir leikir eftir og við þurfum bara að fara á fullri ferð í það, það er ekki spurning."

„Við munum halda áfram að berjast þangað til að lokaflautið gellur. Það er alveg klárt mál,"
sagði Jón Þór.

Leikjaprógram ÍA:
8. október ÍA - Fram
15. október Leiknir - ÍA
22. október ÍA - ÍBV
29. október FH - ÍA