mán 03.okt 2022
Verður síðasti dansinn stiginn í Njarðvík?
Óskar Örn Hauksson.
Njarðvík ætlar að reyna að fá Óskar Örn Hauksson aftur heim til félagsins fyrir næsta sumar.

Frá þessu var sagt í útvarpsþættinum Fótbolta.net á laugardaginn.

Óskar, sem er 38 ára, er goðsögn í íslenskum fótbolta og einn besti leikmaður efstu deildar frá upphafi. Hann gerði garðinn frægann með KR en samdi við Stjörnuna fyrir tímabilið sem er núna í gangi.

Hann hefur ekki verið í stóru hlutverki hjá Stjörnunni á tímabilinu og gæti farið annað í vetur.

Í útvarpsþættinum var sagt frá því að Njarðvík, sem vann sér inn sæti í Lengjudeildinni í sumar, ætli að reyna að fá Óskar heim frá Stjörnunni.

Óskar steig sín fyrstu skref í meistaraflokki með Njarðvík og gæti stigið sinn síðasta dans í fótboltanum þar.

„Ég veit að það er klárt mál að Njarðvíkingar vilja það og þeir munu reyna," sagði Elvar Geir Magnússon í útvarpsþættinum sem má hlusta á hér fyrir neðan.