mán 03.okt 2022
Arsenal hafnaði tilboðum í Saliba í sumar
Mynd: Getty Images

Arsenal hefur miklar mætur á franska miðverðinum William Saliba sem hefur verið frábær á sínu fyrsta tímabili í byrjunarliðinu.Arsenal borgaði 30 milljónir evra fyrir Saliba sumarið 2019 en lánaði varnarmanninn aftur til AS Saint-Etienne út tímabilið. Saliba var þá aðeins 18 ára gamall en átti flott tímabil í frönsku deildinni og flutti til Englands ári síðar, þegar hann var orðinn 19 ára.

Saliba lenti í alvarlegum persónulegum áföllum á dvöl sinni á Englandi og fékk ekki að spila þannig hann var lánaður til Nice hálfu ári síðar. Hann gerði vel hjá Nice og fór svo til Marseille á láni á síðustu leiktíð og var valinn besti varnarmaður frönsku deildarinnar.

Það voru tvö félög sem reyndu að krækja í Saliba í sumar en Arsenal hafnaði stóru tilboði frá Marseille auk þess að hafna fyrirspurn frá Barcelona, samkvæmt heimildum Fabrizio Romano. Saliba var næstur á lista eftir Jules Koundé hjá Börsungum.

Arsenal gerði vel að halda Saliba þar sem hann hefur verið frábær á upphafi tímabils og er óvænt kominn með tvö mörk í átta leikjum eftir að hafa aðeins skorað eitt mark áður á ferlinum.

Saliba er í uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Arsenal en á aðeins tæplega tvö ár eftir af samningi sínum við félagið.