mán 03.okt 2022
Spánn: Lopez með sigurmark á 96. mínútu
Unai Lopez fagnaði sigurmarki kvöldsins.

Rayo Vallecano 2 - 1 Elche
0-1 Lucas Boye ('32)
1-1 Sergio Camello ('40)
2-1 Unai Lopez ('96)Rayo Vallecano og Elche áttust við í síðasta leik sjöundu umferðar spænska deildartímabilsins.

Gestirnir frá Elche tóku forystuna á 32. mínútu þegar Lucas Boye skoraði með skalla eftir hornspyrnu.

Heimamenn voru betri aðilinn og náðu að jafna fyrir leikhlé. Sergio Camello lét vaða frá vítateigslínunni og breytti skot hans um stefnu af varnarmanni og endaði í netinu.

Rayo fékk mikið af færum í síðari hálfleik en virtist ekki ætla að takast að gera sigurmarkið. Undir lok uppbótartímans náði dramatíkin hámarki. Elche, sem hafði varla átt marktilraun eftir leikhlé, fékk óvart dauðafæri eftir varnarmistök en Tete Morente fór illa að ráði sínu og setti boltann framhjá. Um það bil mínútu síðar voru heimamenn komnir í sókn á hinum enda vallarins og skoraði Unai Lopez sigurmarkið með viðstöðulausu skoti rétt utan teigs.

Lokatölur 2-1 og er Elche áfram á botninum með eitt stig. Rayo er um miðja deild með tíu stig.