mán 03.okt 2022
Cooper: Erum ennþá á undirbúningstímabilinu

Steve Cooper, knattspyrnustjóri Nottingham Forest, var svekktur eftir 4-0 tap á útivelli gegn Leicester City í botnbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.Forest keypti meira en 20 nýja leikmenn til sín í sumar. Margir þeirra komu í seinni hluta ágúst mánaðar og hafa því aðeins verið innan herbúða Forest í um það bil einn mánuð.

„Við vorum ekki nógu góðir. Við fengum einhver færi til að skora en nýttum þau ekki. Það skiptir miklu máli í þessari deild að nýta færin sem bjóðast, við erum að spila á alltof háu gæðastigi. Okkur verður refsað," sagði Cooper eftir tapið í grannaslagnum gegn Leicester.

„Það er erfitt að gagnrýna leikmennina því þetta er splunkunýr leikmannahópur. Leikmenn eru ennþá að kynnast en ég sé að baráttuandinn er til staðar. Þeir þurfa aðeins að venjast hvorum öðrum.

„Við erum ennþá bara á undirbúningstímabilinu, við fengum marga leikmenn seint inn í hópinn og það eru ýmisleg vandamál að koma upp sem við erum vanari að glíma við fyrir keppnistímabilið. Það er mjög erfitt að vera bara ennþá á undirbúningstímabilinu þegar keppni er hafin í sterkustu deild í heimi. Þetta er mjög erfitt núna en verður betra þegar tekur að líða á tímabilið.

„Ég vil ekki segja að leikmennirnir séu ekki nógu góðir en það er ljóst að við verðum að gera mikið betur í næstu leikjum. Þetta verður erfið áskorun þar sem fæstir hérna hafa þekkst í meira en mánuð."

Cooper var spurður hvort hann byggist við því að vera rekinn úr starfi eftir þetta tap.

„Ég skil stöðuna og sýni henni skilning en ég er ekkert að velta starfinu fyrir mér. Vandamálið í mínum augum er að Nottingham Forest tapaði öðrum fótboltaleik. Þetta félag er mikilvægara heldur en persónulegir hagsmunir mínir."