þri 04.okt 2022
Conte segir Spence ekki vera tilbúinn: Gil er partur af hópnum
Tottenham borgaði rúmlega 20 milljónir punda fyrir Gil og gaf Erik Lamela með í skiptum.
Mynd: EPA

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, svaraði spurningum um Djed Spence og Bryan Gil leikmenn liðsins sem hafa ekki verið að fá spiltíma.Bakvörðurinn Spence var keyptur í sumar fyrir 12,5 milljónir punda en hefur ekki tekist að komast nálægt byrjunarliðinu. Hann er þriðji í goggunarröðinni eftir Emerson Royal og Matt Doherty og hefur aðeins fengið að spila nokkrar mínútur á tímabilinu, þegar honum var skipt inn af bekknum undir lokin í sigri gegn Nottingham Forest.

Einhverjir stuðningsmenn Tottenham vilja sjá Spence á vellinum og var Conte spurður hvort hann ætlaði að verða við þessari ósk þeirra.

„Stuðningsmenn eru stuðningsmenn. Þeir mega hugsa það sem þeir vilja en það er ég sem er á æfingum á hverjum degi og sé hvað fer fram á æfingasvæðinu," sagði Conte.

„Ég reyni að gera mitt besta, þetta eru mínar ákvarðanir. Ef ég vel ekki einhvern leikmann þá geta verið ýmsar ástæður fyrir því, kannski er hann bara ekki tilbúinn."

Conte var þá spurður út í Spánverjann Bryan Gil sem var lánaður til Valencia í vetur og virtist vera á leið þangað aftur í sumar.

„Bryan Gil er partur af leikmannahópnum. Hann er ungur strákur og við vildum sjá þróun hans á láni hjá Valencia en það gekk ekki upp. Ég treysti honum," sagði Conte.

Gil er 21 árs kantmaður með fjóra A-landsleiki að baki fyrir Spán. Fabrizio Romano greinir frá því að Valencia og Tottenham komust að samkomulagi um lán í sumar en Gil hafi ekki fengið að fara því Tottenham fann ekki leikmann til að fylla í skarðið.