þri 04.okt 2022
Carragher: Liverpool auðveldasti andstæðingurinn
Mynd: Getty Images

Jamie Carragher er ekki sáttur með slæma byrjun Liverpool á nýju tímabili og útskýrði vandamálið sem Jürgen Klopp er að glíma við fyrir áhorfendum Sky Sports.Liverpool gerði 3-3 jafntefli við Brighton um helgina og er aðeins með 10 stig eftir 7 umferðir í ensku úrvalsdeildinni. Stórveldið er búið að fá 14 mörk á sig í leiðinni og eru menn ósammála um hvað veldur.

Varnarlínan hefur verið gagnrýnd og þá sérstaklega Trent Alexander-Arnold. Paul Merson segir að brotfför Sadio Mane hafi haft þessi neikvæðu áhrif á varnarleikinn en Carragher telur vandamálið liggja á miðjunni og þá sérstaklega hjá einum leikmanni.

„Þetta er stórt vandamál, leikmenn eru að gera sjálfum sér mjög erfitt fyrir. Vandamálið virðist ekki vera hugarfarstengt en að mínu mati þá er miðjan að valda þessu," sagði Carragher í beinni útsendingu á mánudagskvöldi. „Fabinho hefur verið kílómetrum frá sínu besta og við erum búnir að vera heppnir á köflum að ekki hefur farið verr.

„Það er alltof auðvelt fyrir lið að koma upp í gegnum miðjuna og komast í stöður til að hlaupa á varnarlínuna. Brighton komst í 2-0 forystu eftir 20 mínútur en þeir hefðu getað verið komnir í 4-0 því varnarleikurinn hjá Liverpool er að klikka.

„Klopp vill alltaf að Liverpool séu erfiðustu andstæðingarnir en eins og staðan er í dag líta þeir út fyrir að vera auðveldustu andstæðingarnir."