þri 04.okt 2022
Merson skilur ekki söluna á Mane: Versta ákvörðun í heimi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Paul Merson, fótboltasérfræðingur hjá Sky Sports, er einn af mörgum sem hefur tjáð sig um vandræðaganginn í varnarleik Liverpool.Menn eru með skiptar skoðanir á því hvað veldur vandræðunum en Merson vill meina að salan á Sadio Mane í sumar eigi stóran þátt.

„Ég hef sagt frá byrjun að það var versta ákvörðun í heimi að selja Sadio Mane. Þetta er ótrúlega duglegur leikmaður, öll hápressa Liverpool byrjaði frá honum og svo skoraði hann gífurlega, gífurlega mikilvæg mörk," sagði Merson.

„Ég skil bara ekki hvernig félagið gat selt hann. Darwin Nunez er ekki í sama gæðaflokki eins og staðan er í dag, bara alls ekki. Vandræðin í vörninni eru útaf sóknarmönnunum sem eru ekki að pressa nógu vel. Þetta eru góðir fótboltamenn sem búa yfir miklum gæðum en það vantar einhvern til að leiða pressuna.

„Lið hafa ekki átt í miklum vandræðum með að losna undan pressunni hjá Liverpool á upphafi tímabils. Eftir pressuna kemur þriggja manna miðja sem er ekki sú besta í deildinni og svo er það bara fjögurra manna varnarlína. Hversu margir leikmenn eru að hlaupa á Virgil van Dijk á þessu tímabili miðað við síðustu þrjú eða fjögur ár? Það skiptir ekki miklu máli hversu góður varnarmaður þú ert þegar menn eru að hlaupa á þig úr öllum áttum, boltinn mun enda í netinu."

Liverpool er aðeins komið með tíu stig eftir sjö fyrstu umferðir tímabilsins og er Alisson Becker búinn að fá 14 mörk á sig.

„Ég er ekki mikill tölfræðikarl en að mínu mati þá er fáránlegt að selja Mane fyrir 30 milljónir punda í staðinn fyrir að halda honum í eitt ár og leyfa svo að fara á frjálsri sölu. Þessi sala gæti kostað Liverpool talsvert meira en 30 milljónir þegar tímabilinu fer að ljúka."

Liverpool mætir Arsenal í hörkuslag um næstu helgi og segir Merson að Liverpool verði að vinna þá viðureign. „Tap þar þýðir að Liverpool getur ekki lengur náð Arsenal og þá eru bara tvö laus Meistaradeildarsæti eftir."