þri 04.okt 2022
Einungis Kane með betri tölfræði en Maddison sem þráir að fara á HM
James Maddison átti frábæran leik þegar Leicester vann 4-0 sigur á Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í gær. Maddison skoraði tvö mörk og lagði upp eitt.

Maddison, sem er 25 ára miðjumaður, var ekki í enska landsliðshópnum í síðasta glugga þrátt fyrir að vera núna sá enski leikmaður sem hefur komið að næst flestum mörkum frá því að tímabilið 2021-22 byrjaði. Einungis Harry Kane hefur komið að fleiri mörkum.

„Það er markmiðið mitt. Ég þrái það tækifæri og veit að ég gæti haft góð áhrif. Þetta hefur verið skrítin staða því við höfum verið á botni deildarinnar en sjálfstraustið hjá mér er eins mikið og það hefur nokkurn tímann verið. Ég man ekki eftir því að hafa spilað betur en á síðustu tólf mánuðum. Ég er meðvitaður um að það eru toppleikmenn í minni stöðu en mér finnst ég geta verið einn af þeim. Ég verð að troða mér inn í hópinn því þar eru leikmenn sem spila með stærstu liðunum. Mér finnst vera pláss fyrir mig, svo ég mun halda áfram að leggja mikið á mig," sagði Maddison.

Frá því að síðasta tímabil byrjaði hefur Maddison skorað sautján mörk og lagt upp tíu.