þri 04.okt 2022
Ekki fengið gigg á Englandi síðan hann gagnrýndi Maguire
Rafael van der Vaart
Rafael van der Vaart, fyrrum leikmaður Real Madrid og hollenska landsliðsins, segist ekki hafa fengið boð um að vera spekingur hjá Sky Sports eftir að hann gagnrýndi enska miðvörðinn Harry Maguire fyrir þremur árum.

Van der Vaart liggur ekki á skoðunum sínum og gagnrýndi hann Maguire eftir að hafa séð hann spila með Manchester United og enska landsliðinu. Hann var spekingur á leik Englands og Hollands í Þjóðadeildini og lét allt flakka.

„Ég sá Maguire í Þjóðadeildinni og mér fannst hann bara ótrúlega lélegur. Nokkrum dögum síðar var hann seldur fyrir 80 milljónir punda, sem mér fannst fáránlegt. Ég sagði þetta á Sky Sports og ég hef ekki fengið boð um að koma aftur eftir þetta og allir á Englandi voru á eftir mér. Ég hef núna tilfinningu fyrir því að allir séu sammála mér," sagði Van der Vaart.

Maguire hefur misst sæti sitt í liði United. Raphael Varane og Lisandro Martínez eru byrjunarliðsmenn á meðan Maguire situr á bekknum og vann liðið fjóra deildarleiki í röð eftir að hann var settur á tréverkið.