þri 04.okt 2022
Meistaradeildin: Draumamark Alexander-Arnold - Napoli slátraði Ajax
Trent Alexander-Arnold skoraði úr aukaspyrnu gegn Rangers
Napoli skoraði sex
Mynd: EPA

Markvörður AJax átti ömurlegan dag eins og liðsfélagar hans
Mynd: EPA

Hakan Calhanoglu fagnar marki sínu gegn Barcelona
Mynd: EPA

Liverpool vann annan leik sinn í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á þessu tímabili er Rangers kom í heimsókn á Anfield. Trent Alexander-Arnold skoraði stórkostlegt mark úr aukaspyrnu fyrir heimamenn í 2-0 sigri.

Enska liðið var ákveðið strax í byrjun leiks. Darwin Nunez fékk ágætis færi á fyrstu mínútunum en Allan McGregor, markvörður Celtic, varði vel og átti hann eftir að taka fleiri stórar vörslur síðar í leiknum.

Trent Alexander-Arnold, sem hefur verið gagnrýndur harðlega síðustu vikur, skoraði stórkostlegt mark úr aukaspyrnu á 7. mínútu leiksins. Hann lyfti boltanum hárfín yfir vegginn og efst í vinstra hornið.

Nunez var öflugur í að skapa sér færin gegn Rangers en McGregor var hins vegar í banastuði og varði allar tilraunir hans. Staðan í hálfleik, 1-0 fyrir Liverpool.

Liverpool fékk vítaspyrnu á 52. mínútu. Luis Díaz lék sér með boltann í teig Rangers og fékk John Lundstram í sig áður en Leon King kom með og braut í leiðinni á Kólumbíumanninum. Mohamed Salah skoraði úr spyrnunni.

Diogo Jota fékk frábært færi til að gera þriðja mark Liverpool en aftur var McGregor mættur til að verja. Ótrúlegur leikur hjá skoska markverðinum.

Rangers fór aðeins að sækja undir lok leiks og kom fyrsta færi þeirra á markið þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum. Liðið var þó aldrei líklegt til árangurs í dag og lokatölur því 2-0 Liverpool í vil. Liverpool er í 2. sæti með 6 stig, þremur stigum á eftir Napoli sem pakkaði Ajax saman, 6-1.

Mohammed Kudus kom Ajax yfir á 9. mínútu en það fór allt niður á við eftir það. Giacomo Raspadori jafnaði metin níu mínútum síðar og þá kom Giovanni Di Lorenzo liðinu yfir áður en Piotr Zielinski bætti við þriðja markinu undir lok fyrri hálfleiks.

Raspadori, Kvicha Kvaratshkelia og Giovanni Simeone kláruðu svo dæmið endanlega í þeim síðari. Dusan Tadic fékk að líta rauða spjaldið þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.

Markalaust hjá Tottenham

Tottenham þurfti að sætta sig við markalaust jafntefli gegn Eintracht Frankfurt í Þýskalandi. Harry Kane og Richarlison fengu báðir góð færi til að skora.

Richarlison fékk fullkomið færi þegar hann slapp einn í gegn en Hasebe kom á eftir honum og komst fyrir skotið. Leikmenn Tottenham vildu fá vítaspyrnu en fengu ekki.

Frankfurt átti nokkur ágætis færi í þeim síðari en hvorugt lið skoraði í dag og lokatölur 0-0. Tottenham er í 2. sæti D-riðils með 4 stig.

Í B-riðli vann Club Brugge óvæntan 2-0 sigur á Atlético Madríd þar sem Kamal Sowah og Feran Jutgla skoruðu mörkin í sitt hvorum hálfleiknum. Antoine Griezmann gat komið Atlético inn í leikinn þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir en hann klúðraði spyrnunni. Porto lagði þá Bayer Leverkusen með sömu markatölu. Club Brugge hefur unnið alla leiki sína í riðlinum og er á toppnum.

Inter lagði Barcelona, 1-0. Hakan Calhanoglu skoraði eina mark leiksins undir lok fyrri hálfleiks. Pedri taldi sig hafa jafnað fyrir Barcelona á 67. mínútu en VAR dæmdi markið af.

Úrslit og markaskorarar:

A-riðill:

Liverpool 2 - 0 Rangers
1-0 Trent Alexander-Arnold ('7 )
2-0 Mohamed Salah ('53 , víti)

Ajax 1 - 6 Napoli
1-0 Mohammed Kudus ('9 )
1-1 Giacomo Raspadori ('18 )
1-2 Giovanni Di Lorenzo ('33 )
1-3 Piotr Zielinski ('45 )
1-4 Giacomo Raspadori ('47 )
1-5 Khvicha Kvaratskhelia ('63 )
1-6 Giovanni Simeone ('81 )
Rautt spjald: Dusan Tadic, Ajax ('73)

B-riðill:

Porto 2 - 0 Bayer
0-0 Patrik Schick ('45 , Misnotað víti)
1-0 Zaidu Sanusi ('69 )
2-0 Wenderson Galeno ('87 )
Rautt spjald: Jeremie Frimpong, Bayer ('88)

Club Brugge 2 - 0 Atletico Madrid
1-0 Kamal Sowah ('36 )
2-0 Ferran Jutgla ('62 )
2-0 Antoine Griezmann ('76 , Misnotað víti)

C-riðill:

Inter 1 - 0 Barcelona
1-0 Hakan Calhanoglu ('45 )

D-riðill:
Eintracht Frankfurt 0 - 0 Tottenham